Forseti Íslands
The President of Iceland
Skrifpúlt Sveinbjarnar Egilssonar
Í dag 1. desember kl. 11:00 afhenda afkomendur og ættingjar Ragnars Ásgeirssonar skrifpúlt Sveinbjarnar Egilssonar á Bessastöðum og er fulltrúum fjölmiðla boðið að vera viðstaddir afhendinguna. Sveinbjörn var kennari í Bessastaðaskóla fyrir um 200 árum, á fyrstu áratugum 19. aldar og einn helsti áhrifamaður um endurreisn íslenskrar tungu. Skrifpúltið eignuðust síðar Benedikt Gröndal sonur Sveinbjarnar og svo Einar Benediktsson skáld.
Við skrifpúltið vann Sveinbjörn Egilsson að mörgum snilldarverkum, þýðingum á fornum grískum ritum, orti ljóð og mótaði rannsóknir og texta um íslenska tungu. Meðal lærisveina hans í Bessastaðaskóla var Jónas Hallgrímsson. Benedikt og Einar unnu báðir að ýmsum sinna þjóðþekktu verka við þetta púlt.
Sveinbjörn Egilsson tók saman orðabók yfir íslenskt skáldamál, þýddi á íslensku kviður Hómers, sex samræður Platons og önnur forngrísk rit. Forystumenn Grikklandsvinafélagsins verða því einnig viðstaddir athöfnina. Að auki íslenskaði Sveinbjörn Egilsson Opinberunarbók Biblíunnar, aðra Mósebók og Spámannabækur. Hann þýddi og Snorra-Eddu og Íslendingasögur á latínu og orti jólasálminn Heims um ból eftir þýskri fyrirmynd; loks er hann þekktur sem höfundur hinna ástsælu barnakvæða Fljúga hvítu fiðrildin og Fuglinn segir bí bí bí.
Í sögu Bessastaða sem kom út árið 1947 segir Vilhjálmur Þ. Gíslason:
„Sveinbjörn Egilsson er tákn hins besta og lífshæfasta í Bessastaðaskóla. Og meira en það. Hann er ímynd þess, sem þróttmest var og fágaðast í íslenskum menntum á 19. öld. Í eðli hans og störfum þrinnast saman sterkustu og fínustu þræðir íslenskra mennta og íslensks manngildis eins og það var spunnið öldum saman úr þjóðlegum fræðum og innlendu sögueðli og úr klassískri mennt og kristinni kenningu. Í engum íslenskum manni síðari alda, sem látið hefur eftir sig ritaðar heimildir, hafa þessir þrír máttarviðir menningarinnar komið eins vel fram, hvergi hafa þeir mótað annan mann svo einsteyptan og heilsteyptan eins og Sveinbjörn Egilsson, engan mann með eins lifandi og gullnu jafnvægi milli lærdóms og listar og lífs.“
Letur: |
| |