Veftré Print page English

Fyrirlestur forseta hjá IRENA


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti, meðan á dvöl hans í Abu Dhabi stóð, fyrirlestur á fundi með starfsfólki nýrrar alþjóðastofnunar um hreina orku, IRENA (International Renewable Energy Agency). Stofnunin hefur nýlega tekið til starfa og hefur mikill fjöldi ríkja víða um heim staðfest aðild sína að henni. Höfuðstöðvar hennar eru í Abu Dhabi.


IRENA er ætlað að stuðla að grundvallarbreytingum í nýtingu hreinnar orku, efla samvinnu ríkja og tækniþróun ásamt því að hrinda í framkvæmd verkefnum í öllum heimshlutum.


Árangur Íslendinga við nýtingu vatnsafls og jarðhita er talinn mikilvægt fordæmi og hefur forystusveit stofnunarinnar mikinn áhuga á framlagi Íslendinga til alþjóðasamfélagsins á þessu sviði.


Í ræðu sinni fjallaði forseti Íslands um þróunina í orkubúskap Íslendinga frá því að innflutt olía og kol voru meginorkugjafar landsmanna; hvernig sú tækni sem nýtt væri í jarðhita, sólarorku og vindafli væri sérstaklega hagfelld þróunarlöndum þar eð hægt væri að sníða framkvæmdir jafnt að þörfum þorpa sem borga. Einnig rakti forsetinn fjölmörg verkefni sem íslenskir tæknimenn og sérfræðingar vinna nú að víða um heim. Að lokinni ræðu sinni svaraði forseti fjölmörgum spurningum starfsfólksins.


Forseti Íslands átti einnig gagnlegan fund með Adnan Amin, settum forstjóra IRENA, um frekari samvinnu stofnunarinnar við Íslendinga og hefur forstjórinn mikinn áhuga á að heimsækja Ísland innan tíðar til nánari viðræðna við íslenska aðila og sérfræðinga á þessu sviði.