Veftré Print page English

Vígsla nýrrar, sjálfbærrar háskólabyggingar í Abu Dhabi


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson var í morgun, þriðjudaginn 23. nóvember, heiðursgestur við vígslu Masdar tækniháskólans í Abu Dhabi. Byggingin, sem teiknuð er af hinum heimsþekkta arkitekt Norman Foster, er talin sjálfbærasta bygging veraldar þar sem mengun og úrgangur eru komin niður að núll-markinu.

Krónprins Abu Dhabi,  Mohammed bin Zayed Al Nahyan, bauð forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, til athafnarinnar vegna stuðnings forsetans frá upphafi við þá framtíðarsýn sem Masdar endurspeglar. Tækniháskólinn er fyrsta byggingin sem vígð er í Masdarborg en henni er ætlað að varða veginn til sjálfbærrar framtíðar og sýna í verki hvernig hægt er að nýta nýja tækni til að draga úr og jafnvel koma í veg fyrir kolefnisútblástur og mengun um leið og allur úrgangur væri endurnýttur. Þar með væru send mikilvæg skilaboð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Margir ráðamenn Abu Dhabi voru viðstaddir vígsluna og að henni lokinni sat forseti Íslands fund með þeim og forystumönnum Tækniháskólans þar sem rætt var um frekari áfanga á þessari braut.

Masdar tækniháskólinn á í nánu samstarfi við MIT háskólann í Bandaríkjunum og stunda nú um 250 stúdentar rannsóknir við skólann og ljúka með þeim meistaranámi sínu eða doktorsprófi. Þeirra á meðal eru tveir íslenskir stúdentar sem notið hafa ríflegra styrkja frá stjórnvöldum í landinu.

Íslenska jarðhitafyrirtækið Reykjavik Geothermal boraði fyrr á þessu ári eftir jarðhita innan borgarmarka Masdar. Hinn frábæri árangur þessara borana markar tímamót í þessum heimshluta og er nú rætt um möguleika á því að virkja jarðhitann til að knýja loftkælingu á háskólasvæðinu. Það gæti markað upphaf að víðtækri nýtingu jarðhita í þessum heimshluta og öðrum heitum löndum í þágu loftkælingar sem er afar orkufrek.

Forseti Íslands mun einnig eiga fund með dr. Sultan Al Jaber forstjóra Masdar um frekari samvinnu við íslenska tæknimenn, vísindasamfélag og viðskiptalíf.