Veftré Print page English

Blaðamannafundur um Forvarnardaginn


Boðið er til kynningar- og blaðamannafundar um Forvarnardaginn í Foldaskóla á morgun þriðjudaginn 2. nóvember klukkan 10:30. Viðstaddir kynninguna verða nemendur og stjórnendur skólans, sem og forsvarsmenn þeirra fjöldasamtaka og aðila sem standa að Forvarnardeginum. Hann verður haldinn í grunnskólum um allt land næsta dag, miðvikudaginn 3. nóvember næstkomandi.

Á kynningunni flytja stutt ávörp Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Jón Gnarr borgarstjóri, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir forstjóri Actavis á Íslandi, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ og Bragi Björnsson skátahöfðingi.

Fundurinn verður haldinn í náttúrufræðistofu í nýbyggingu Folda¬skóla og taka þátt í honum nokkrir nemar sem verða sérstakir talsmenn Forvarnardagsins í ár. Á fundinum verður sýnt nýtt kynningar¬myndband Forvarnardagsins, þar sem meðal annars koma fram þau Páll Óskar Hjálmtýsson, Ragna Ingólfsdóttir, Alfreð Finnbogason, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og mæðgurnar Guðrún Gunnarsdóttir og Ólöf Jara Valgeirsdóttir.
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðstand¬endur Forvarnardagsins, sem skipulagður er með stuðningi lyfjafyrirtækisins Actavis, eru Bandalag íslenskra skáta, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rannsóknir og greining í Háskólanum í Reykjavík, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Ungmennafélag Íslands.

Forvarnardagurinn, sem nú er haldinn í fimmta sinn, er byggður á niðurstöðum íslenskra rannsókna sem sýna hvaða ráð duga best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi, samverustundir með fjölskyldunni og að fresta sem lengst að neyta áfengis.

Á Forvarnardaginn fara fram umræður nemenda í grunnskólunum um hugmyndir þeirra og tillögur varðandi nýjungar og breytingar á æskulýðs- og íþróttastarfi, fjölskyldulífi og öðrum þeim þáttum sem eflt geta forvarnir. Reynslan hefur sýnt mikla hugmyndaauðgi nemenda í slíkum samræðum. Allar hugmyndir og tillögur nemenda verða teknar saman og settar í skýrslu sem birt er á vefsíðu dagsins, forvarnardagur.is. Þá gefst nemendum kostur á að taka þátt í ratleik á vefsíðum íþrótta- og ungmennasamtaka og eru þar verðlaun í boði. Í ár er sú nýjung tekin upp í ár að birta efni tengt Forvarnardeginum á Fésbók.

Í könnunum sem Rannsóknir og greining hafa framkvæmt árlega meðal tíundubekkinga síðastliðin tólf ár sést að áfengisneysla hefur minnkað verulega. Árið 1998 sögðust 42% þeirra hafa verið ölvuð einhvern tíma síðustu 30 daga en 14% í könnun ársins 2010. Sambærilegar niðurstöður fást þegar spurt er um reykingar. Þessar tölur eru með því lægsta sem þekkist í Evrópu og hafa þessar miklu og jákvæðu breytingar vakið athygli víða um lönd.