Veftré Print page English

Sendimaður Frakklandsforseta


Michel Rocard, sérlegur sendimaður Frakklandsforseta um málefni heimskautanna og fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands kemur til Íslands í dag í boði forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og flytur á mánudaginn fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn ber heitið „Hvernig á að stjórna Norðurheimsskautssvæðinu – hlutverk Frakklands og Evrópu?“ Hann hefst klukkan 12:00, verður fluttur á ensku og er opinn almenningi.

Meðan á dvöl Michel Rocards stendur mun hann eiga fundi með forseta Íslands og Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra, heimsækja Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands til að kynna sér rannsóknir íslenskra vísindamanna á íslenskum jöklum og Grænlandsjökli og fara í Hafrann¬sókna¬stofnunina til að fræðast um fiskveiðieftirlit og rannsóknir á haf¬straumum og fiskistofnum. Þá mun hann heimsækja Samhæfingarstöð Almannavarna og skoða gosslóðir á Suðurlandi.

Michel Rocard á að baki langan feril sem stjórnmálamaður. Hann var um tíma landbúnaðarráðherra og svo á árunum 1988-1991 forsætis¬ráðherra. Hann sat þrjú kjörtímabil á Evrópuþinginu og lét til sín taka í ýmsum málum, svo sem utanríkismálum, menntamálum og atvinnu¬málum. Nicolas Sarkozy forseti Frakklands skipaði Rocard nýlega sérstakan sendimann sinn í málefnum heimskautanna.

Fyrirlesturinn sem Michel Rocard flytur í hádeginu á mánudaginn í Hátíðarsal Háskóla Íslands er hluti af fyrirlestraröð forseta Íslands „Nýir straumar“ en ýmsir þekktir fræðimenn og forystumenn hafa á undan¬förnum árum tekið þátt í henni. Fyrirlesturinn er haldinn í samvinnu við Háskóla Íslands.