Veftré Print page English

Fyrirlestur: Himalajajöklar - þriðja heimskautið


Dr. Yao Tandong, fremsti jöklafræðingur Kína og stjórnandi víðtækra rannsókna á Himalajasvæðinu, flytur fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 1. október kl. 12:00. Fyrirlesturinn er haldinn í boði forseta Íslands og í samvinnu við Háskóla Íslands. Heiti fyrirlestrarins er „Himalajajöklarnir: Þriðja heimskautið“.  Hann verður fluttur á ensku og er opinn öllum almenningi.

Yao Tandong á glæsilegan vísindaferil að baki og hefur birt tugi ritgerða á fræðasviði sínu, svo sem um áhrif rýrnunar jökla á vatnsbúskap í Kína, áhrif loftslagsbreytinga á monsúnkerfið í Asíu og um breytingar á úrkomu og hitastigi sem lesa má úr jökulborkjörnum nokkur þúsund ár aftur í tímann. Dr. Yao hefur verið heiðraður fyrir vísindastörf sín með margvíslegum hætti.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð forseta Íslands Nýir straumar en ýmsir þekktir fræðimenn og forystumenn víða að hafa á undanförnum árum tekið þátt í henni.

Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor mun stýra samkomunni á föstudaginn en forseti Íslands og prófessor Helgi Björnsson kynna fyrirlesarann.