Veftré Print page English

Forsætisráðherra Rússlands. Norðurslóðaþing


Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands átti í dag, fimmtudaginn 23. september, fund með Vladimir Putin forsætisráðherra Rússlands, en áður höfðu þeir báðir flutt ræður á Alþjóðaþingi um Norðurslóðir sem haldið er í Moskvu. Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu embættisins.

Á fundinum með forseta Íslands fjallaði Putin um mikilvægi þess að efla samstarf Íslands og Rússlands á komandi árum. Lega landanna, nágrenni og sameiginlegir hagsmunir á Norðurslóðum, nýting orkulinda og nýjar siglingaleiðir í norðri milli Asíu og Evrópu; allt þetta kallaði á aukin og náin samskipti ríkjanna. Putin lýsti áhuga rússneskra orkufyrirtækja á því að kanna möguleika Drekasvæðisins. Einnig væri brýnt að hefjast nú þegar handa um gerð áætlana og alþjóðlegs regluverks varðandi ferðir skipalesta sem myndu fara um hinar nýju norðurleiðir á komandi árum og áratugum. Byggja þyrfti hafnir, skipuleggja svæði fyrir gámageymslur og þróa samgöngumiðstöðvar sem þjónað gætu þessari nýju vídd í heimsviðskiptunum. Þar skiptu lega Íslands og Rússlands höfuðmáli.

Putin hvatti einnig til þess að íslenskir aðilar tækju virkan þátt í jarðhitanýtingu á Kamtsjatkasvæðinu og hyggst senda forystumenn rússneskra ríkisstofnana og svæðisstjórnar Kamtsjatka til Íslands til að kynna sér þá víðtæku jarðhitanýtingu sem Íslendingar hafa þróað.

Þá lagði hann áherslu á áframhaldandi samstarf landanna um ábyrga nýtingu fiskistofna og eflingu viðskipta með sjávarafurðir.

Sú grundvallarbreyting hefði orðið að fjölþætt verkefni á Norðurslóðum mynduðu nú nýjar brýr í samstarfi Íslands og Rússlands. Í ræðum sínum á Alþjóðaþinginu um Norðurslóðir fjölluðu forsætisráðherra Rússlands og forsetí Íslands báðir ítarlega um það efni.

Forseti Íslands benti á að þróun alþjóðlegra samtaka sem og rannsóknarsamstarf á Norðurslóðum hefðu fært íbúunum ný tækifæri til áhrifa. Víða um heim hefði hann fundið vaxandi áhuga á að kynnast þeirri nýsköpun í samstarfi sem orðið hefði til á Norðurslóðum síðastliðin ár. Nefndi forseti í þessu sambandi ferðir sínar til Bangladess, Indlands og Kína. Reyndar sæju vísindamenn og sérfræðingar í málefnum Himalajasvæðisins margt forvitnilegt í forðabúri rannsóknarstofnana á Norðurslóðum og því gæti verið gagnlegt að skapa grundvöll fyrir samráð þessara aðila.

Forseti Íslands minntist einnig á sameiginlega arfleifð Rússa og Íslendinga, sem m.a. væri lýst í íslenskum miðaldasögum, og þakkaði þann vinarhug sem Rússar hefðu jafnan sýnt Íslendingum. Á fundinum með forseta Íslands sagði Putin forsætisráðherra að rússneskum stjórnvöldum hefði verið kappsmál að styðja Ísland á tímum fjármálakreppunnar og slíkur stuðningur væri hluti af erindisbréfi Rússa innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Ræða forseta.