Veftré Print page English

Fundur með forseta Rússlands


Forseti átti í dag, miðvikudaginn 22. september, fund með Dmitry Medvedev forseta Rússlands. Að fundinum loknum buðu forseti Rússlands og eiginkona hans, Svetlana Medvedeva, íslensku forsetahjónunum til síðdegisverðar. Fundurinn var haldinn á sumarsetri forseta Rússlands í útjaðri Moskvu en um morguninn tók forseti Íslands þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um Norðurslóðir sem haldin er í dag og á morgun í Moskvu.

Medvedev forseti lýsti miklum áhuga á að heimsækja Ísland, m.a. til að kynna sér árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku, og ræddi einnig ítarlega um hve mikilvægur leiðtogafundur Gorbachevs og Reagans hefði verið fyrir sköpun nýrrar heimsmyndar.

Á fundi forsetanna var rætt um að auka samvinnu Íslands og Rússlands með sérstöku tilliti til mikilvægis Norðurslóða á komandi árum og áratugum. Bæði ríkin eru stofnaðilar að Norðurskautsráðinu og voru forsetarnir sammála um að efla það og styrkja enda væru Norðurslóðir óðum að verða eitt mikilvægasta svæði veraldar. Þar væri að finna um fjórðung vannýttrar orku jarðarinnar; loftslagsbreytingar og bráðnun íss yrðu sífellt hraðari og líkur væru á því að ný siglingarleið mundi opnast meðfram norðurströnd Rússlands. Hún myndi tengja Asíu við Evrópu og Norður-Ameríku á nýjan hátt. Lega Íslands væri afar mikilvæg í þessu sambandi.

Forseti Rússlands hvatti til þátttöku íslenskra fyrirtækja og sérfræðinga í nýtingu jarðhita í Kamchatka og öðrum héruðum Rússlands. Rússnesk stjórnvöld leggja nú mikla áherslu á að þróa efnahagslíf í Kamchatka og telja að orkuver sem nýta jarðhita geti gegnt lykilhlutverki í því sambandi. Einnig ræddu forsetarnir um aukna samvinnu á sviði flugrekstrar en reynsla Íslendinga í flugi við erfiðar veðuraðstæður hefur komið að góðum notum í samvinnu Loftleiða, dótturfyrirtækis Icelandair, við flugfélög í Síberíu og öðrum norðursvæðum Rússlands.

Þá áréttaði forseti Rússlands áhuga á að gerður yrði samningur milli Íslands og Rússlands um nútímavæðingu efnahagslífsins í Rússlandi og yrði þar m.a. fjallað um nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita, hátækni og upplýsingatækni.

Á fundi forseta Íslands og forseta Rússlands var einnig rætt ítarlega um hætturnar af loftslagsbreytingum og nauðsyn þess að gerðir verði bindandi alþjóðlegir samningar til að koma í veg fyrir þær. Forseti Rússlands lýsti reynslu sinni af samskiptum við önnur ríki, m.a. vonbrigðum með niðurstöðu Kaupmannahafnarráðstefnunnar. Mikilvægt væri að stuðla að nýrri nálgun á þessu sviði og væri Rússland reiðubúið til að leggja sitt af mörkum.

Forseti Íslands tekur í dag og á morgun þátt í viðamiklu alþjóðaþingi um Norðurslóðir sem haldið er í Moskvu, The Arctic – Territory of Dialogue. Þingið er haldin í háskólanum í Moskvu og skipulagt af Landfræðifélagi Rússlands. Það sækja sérfræðingar í málefnum Norðurslóða, fulltrúar ríkja sem liggja að norðurskauts-svæðinu, forystumenn frumbyggja og ýmsir aðrir sem verið hafa virkir þátttakendur í mótun nýrrar norðurstefnu.

Meðal umræðuefna á alþjóðaþinginu eru loftslagsbreytingar á Norðurslóðum, nýting náttúruauðlinda, sjálfbær þróun og nýjar leiðir til að auka samvinnu svæðisstjórna og þjóðríkja á Norðurslóðum.

Forseti Íslands flytur á morgun, fimmtudaginn 23. september, ræðu á lokafundi alþjóðaþingsins.