Veftré Print page English

Heimsókn forseta Slóvakíu


Forseti Slóvakíu Ivan Gašparovič kemur í heimsókn til Íslands síðdegis á sunnudag 19. september og á fundi með forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra auk þess sem hann heimsækir Alþingi. Forsetinn heldur af landi brott á mánudag eftir skoðunarferð til Þingvalla.

Í fylgd með forseta Slóvakíu er utanríkisráðherra landsins Mikuláš Dzurinda, sendiherra Slóvakíu á Íslandi og embættismenn frá forsetaskrifstofunni og utanríkisráðuneytinu.

Fundur forseta Slóvakíu með forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni verður á Bessastöðum kl. 16:30 á sunnudag og að því loknu munu þeir halda blaðamannafund sem hefst kl. 17:10. Um kvöldið býður forseti Íslands forseta Slóvakíu og fylgdarliði hans til kvöldverðar á Bessastöðum.

Á mánudagsmorgun mun forsetinn heimsækja Alþingi þar sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis tekur á móti gestunum frá Slóvakíu og síðan verður haldið til fundar við þingmenn. Að því loknu mun forseti Slóvakíu eiga fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, heimsækja Höfða og loks býður Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra til hádegisverðarfundar mánudaginn 20. september í utanríkisráðuneytinu.