Forsætisráðherra Kína. Jarðhitasamningur
Forseti átti í morgun efnisríkan og jákvæðan fund með forsætisráðherra Kína Wen Jiabao. Fundurinn fór fram í Tianjin þar sem forseti og forsætisráðherrann sækja þing World Economic Forum en það er auk þingsins í Davos veigamesti atburðurinn í starfsemi þess.
Á fundinum með forseta Íslands ítrekaði kínverski forsætisráðherrann Wen Jiabao að kínversk stjórnvöld hefðu ákveðið að styðja Ísland sérstaklega á tímum efnahagslegra erfiðleika og væri gjaldeyrisskiptasamningurinn milli Seðlabanka Kína og Seðlabanka Íslands sem undirritaður var í sumar mikilvægur hornsteinn slíks samstarfs. Kínverjar myndu innan þess ramma leggja kapp á aukinn innflutning á íslenskum vörum og víðtækt samstarf við íslensk verkfræðifyrirtæki og orkufyrirtæki sem stuðla myndi að aukinni þátttöku þeirra í jarðhitavæðingu Kína. Það væri einlæg von kínverskra stjórnvalda að slíkt fjölþætt samstarf, bæði á sviði peningamála, viðskipta og framkvæmda, myndi auðvelda endurreisn íslensks efnahagslífs.
Fréttatilkynning.
Hátíðarræða forseta.
Myndir.
Forsætisráðherrann ræddi auk þess ítarlega um jarðhitaverkefni í Kína, fagnaði þeim árangri sem náðst hefði með íslenska verkefninu í Shaanxi, samningnum sem gerður var í gær við Innri-Mongólíu og þeim áformum sem fram hefðu komið í viðræðum forseta í síðustu viku við stjórnvöld í Yunnan. Þá bauð forsætisráðherrann Íslendingum að taka þátt í stórri sýningu sem helguð verður hreinni orku, en hún verður haldin í Beijing í nóvember á þessu ári. Viðskiptaráðherra Kína sagði í viðræðum við forseta fyrir nokkrum dögum að Kínverjar vildu sérstaklega styðja þátttöku Íslands í sýningunni.
Forsætisráðherra Kína Wen Jiabao sagði að eldgosið í Eyjafjallajökli hefði vakið gríðarlegan áhuga á Íslandi í Kína og á næstunni myndi fjölga mjög kínverskum ferðamönnum á Íslandi. Forsætisráðherrann sagðist sjálfur hafa mikinn áhuga á að koma til Íslands við fyrsta tækifæri, ekki bara í krafti embættis síns heldur einnig sem jarðfræðingur því hann hefði á námsárum sínum kynnt sér eldfjöll og náttúru Íslands.
Þá vildu kínversk stjórnvöld einnig auka samvinnu kínverskra og íslenskra vísindamanna með tilliti til rannsókna á norðurslóðum, bæði heimskautasvæðum og hinni nýju siglingaleið sem opnast kann um norðurhöf. Sama gilti um rannsóknir á jöklum bæði í Kína, á Íslandi og annars staðar í veröldinni og samvinnu á sviði jarðfræði og jarðskjálftarannsókna.
Á næsta ári yrðu 40 ár liðin frá því að löndin tóku upp stjórnmálasamband og þess bæri að minnast með fjölþættri dagskrá, ráðstefnum og vísindaþingum þar sem m.a. yrði fjallað um þau atriði sem voru á dagskrá forseta Íslands og forsætisráðherrans, svo sem á sviði jarðhita, jöklarannsókna, jarðskjálfta og framtíðar norðurslóða.
Forseti Íslands færði forsætisráðherra Kína Wen Jiabao að gjöf bækurnar Perlur í náttúru Íslands eftir Guðmund Pál Ólafsson og Eyjafjallajökull eftir Ara Trausta Guðmundsson og Ragnar Th. Sigurðsson.
Í gærkvöldi var forseti viðstaddur undirritun samnings um nýtingu jarðhita í Innri-Mongólíu. Fylkisstjóri Innri-Mongólíu, framkvæmdastjóri Sinopec, eins stærsta orkufyrirtækis Kína, og Alexander K.Guðmundsson frá Enex China, undirrituðu samninginn við sérstaka athöfn í sendiráði Íslands í Beijing. Samningurinn var gerður í beinu framhaldi af þeim viðræðum sem forseti átti nokkrum dögum áður við fulltrúa frá Innri-Mongólíu en í honum er kveðið á um margháttað samstarf við nýtingu jarðhita, bæði til húshitunar, orkuframleiðslu og gróðurhúsaræktunar.
Heimsókn forseta Íslands til Kína lýkur með því að hann tekur í dag og á morgun þátt í umræðum og málstofum á alþjóðaþinginu sem World Economic Forum heldur í Tianjin. Það sækir fjöldi áhrifamanna og sérfræðinga, einkum frá löndum í Asíu og miðast umræður aðallega við þætti sem helst munu einkenna þróun efnahags- og atvinnulífs á komandi árum, einkum með tilliti til sjálfbærni og tækninýjunga.
Á laugardaginn tók forseti þátt í þjóðardegi Íslands á Heimssýningunni í Shanghai. Flutti hann ræðu á hátíðarsamkomu í upphafi dagsins en áður hafði íslenski fáninn verið dreginn að húni við aðalbyggingu sýningarinnar og þjóðsöngurinn leikinn. Landbúnaðarráðherra Kína flutti einnig ræðu á athöfninni og Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari lék lög eftir fjögur íslensk tónskáld. Að því loknu sat forseti hádegisverð í boði landbúnaðarráðherra Kína og borgarstjórans í Shanghai. Því næst skoðuðu gestir kínverska sýningarskálann og íslenska sýningarskálann.
Forseti hélt blaðamannafund á þjóðardegi Íslands í íslenska sýningarskálanum og svaraði spurningum margra kínverskra fjölmiðla. Auk þess ræddi hann við kínverska ríkissjónvarpið og eitt helsta viðskiptablað í Kína. Umræðuefnin voru m.a. framlag Íslands á Heimssýningunni, nýting hreinnar orku, opnun siglingaleiðar um norðurhöf og aukinn straumur ferðamanna frá Kína til Íslands.
Forseti var viðstaddur tónleika og móttöku í íslenska sýningarskálanum þar sem hann flutti ávarp og þakkaði öllum þeim, sem komið hafa að gerð íslenska sýningarskálans og verið fulltrúar Íslands í Shanghai frá því Heimssýningin opnaði, fyrir frábær störf og óskaði þeim til hamingju með árangurinn, hina miklu landkynningu sem Ísland hefði hlotið í Kína.