Veftré Print page English

Árangursríkir fundir í Kína


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er nú á ferð í Kína í tilefni af þjóðardegi Íslands og íslenskri dagskrá á Heimssýningunni í Shanghai og til að eiga fundi með kínverskum ráðamönnum og sérfræðingum ásamt því að taka þátt í tveimur alþjóðlegum þingum.

Í morgun átti forseti árangursríkan fund með varaforseta Kína Xi Jinping en hann er ásamt Hu Jintao forseta og Wen Jiabao forsætisráðherra einn þriggja helstu ráðamanna Kína. Fundurinn fór fram í Xiamen þar sem forseti Íslands og varaforseti Kína fluttu setningarræður á alþjóðaþingi sem Viðskipta- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNCTAD, heldur í Kína. Ræðunum var sjónvarpað beint í ríkissjónvarpi Kína. Myndir. Fréttatilkynning. Ræða forseta.

Á fundinum með forseta Íslands lét Xi Jinping í ljós afdráttarlausan vilja kínverskra yfirvalda til að efla samvinnu við Ísland, einkum á sviði jarðhitanýtingar og hreinnar orku, sem og rannsókna á jarðskjálftum og jöklum. Varaforsetinn lýsti því yfir að samvinna í jarðhitaverkefnum yrði burðarás í samstarfi við Ísland á komandi árum og mikilvægt væri að íslenskir aðilar tækju þátt í að efla jarðhitanýtingu innan margra svæða og borga í Kína. Bent var á að kínverskir stúdentar gætu sótt nám í orkuskólunum sem nýlega voru stofnsettir í tengslum við íslenska háskóla. Þess má geta að kínversk stjórnvöld hafa nýlega ákveðið að verja sem svarar 735 milljörðum Bandaríkjadala á næstu tíu árum til framkvæmda á sviði hreinnar orku.

Í viðræðunum kom fram að mikilvægt væri að minnast þess með myndarlegum hætti á næsta ári að þá verða 40 ár liðin frá því að tekið var upp stjórnmálasamband milli ríkjanna. Forseti Íslands þakkaði vinsemd í garð Íslands sem fram hefði komið í þeim samningum við Seðlabanka Íslands og um orkumál sem undirritaðir voru þegar einn af leiðtogum Kína He Guoqiang heimsótti Ísland nýlega. Í kvöld situr forseti svo hátíðarmálsverð í boði varaforseta Kína, Xi Jinping.

Í upphafi dvalar sinnar í Kína átti forseti fundi um nýtingu jarðhita með stjórnvöldum frá Innri Mongólíu og fylkinu Yunnan en á báðum stöðunum er ríkulegur áhugi á samvinnu við Íslendinga vegna þeirrar reynslu og tæknikunnáttu sem þjóðin býr yfir. Rætt var um að sendinefndir frá þessum svæðisstjórnum í Kína mundu heimsækja Ísland og hvatt var til nánari viðræðna við íslenska sérfræðinga og orkufyrirtæki. Bæði svæðin hafa yfir að ráða miklum auðlindum á þessu sviði og vilja nýta þær á alhliða hátt líkt og Íslendingar hafa gert, til orkunýtingar, gróðurhúsaræktunar, heilsulinda og ferðaþjónustu.

Þá heimsótti forseti jöklarannsóknastofnunina í Lijiang en þar hafa farið fram ítarlegar rannsóknir á Yulong jöklunum. Þá voru þeir fimmtán en fjórir þeirra hafa horfið á undanförnum árum og aðrir hörfa ört. Fram kom hjá fulltrúum borgaryfirvalda á svæðinu að þau hafa miklar áhyggjur af þessari þróun vegna áhrifa hennar á vatnsbúskap borgarinnar og nágrannahéraða. Yulong jöklarnir eru aðeins hluti þeirra þúsunda jökla sem finna má í Kína, einkum á Himalajasvæðinu. Rætt var um hugsanlega samvinnu kínverskra og íslenskra jöklafræðinga og mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði.

Einnig sat forseti fróðlegan kynningarfund í Kínversku jarðskjálftamiðstöðinni í Kunming þar sem lýst var víðtækum rannsóknum á jarðskjálftum, tjóni í borgum og bæjum og áhrifum þeirra á byggingar og mannvirki, sem og hvernig hjálparstarf hefði verið skipulagt. Eins og kunnugt er hafa hrikalegir jarðskjálftar orðið í Kína á undanförnum misserum og meta kínversk stjórnvöld mikils þá aðstoð sem Íslendingar hafa veitt.

Þá átti forseti einnig viðræður við frú Fu Ying, yfirmann Evrópumála í kínverska utanríkisráðuneytinu, forystumenn stjórnvalda í Yunnanfylki og borgarstjóra Arxan í Innri Mongólíu og Lijiang í Yunnan.

Alþjóðaþingið í Xiamen sem forseti situr nú í boði UNCTAD, Viðskipta- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, er sótt af miklum fjölda þjóðarleiðtoga, ráðherra og annarra forystumanna víða að úr veröldinni sem og sérfræðingum, einkum á sviði hagþróunar, og forystumönnum í viðskiptalífi, einkum frá Asíu.

Í ræðu sinni á setningarathöfninni fjallaði forseti einkum um hvernig reynsla Íslendinga af nýtingu jarðhita gæti nýst ríkjum í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku, og orðið veigamikill þáttur í bættum lífskjörum, árangursríkri og sjálfbærri efnahagsþróun í þriðja heiminum. Ræðu forseta má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.

Á morgun flytur forseti ræðu á sérstökum fundi á þinginu þar sem fjallað verður um ábyrga þróun í fjármálaviðskiptum ríkja og lærdómana sem draga má af reynslu undanfarinna missera.

Síðdegis á morgun heldur forseti svo til Shanghai þar sem hann tekur þátt í þjóðardegi Íslands og fjölþættri annarri dagskrá sem helguð er Íslandi, meðal annars ráðstefnu um nýtingu hreinnar orku og samvinnu Íslands og Kína á því sviði. Fjölmargir íslenskir aðilar taka þátt í henni.