Veftré Print page English

Heimsókn forseta Eistlands


Forseti Eistlands Toomas Hendrik Ilves og eiginkona hans frú Evelin Ilves verða í opinberri heimsókn á Íslandi 10. og 11. júní næstkomandi. Forsetahjónin og fylgdarlið þeirra koma til landsins síðdegis á morgun, miðvikudaginn 9. júní.

Heimsóknin hefst með hátíðlegri athöfn á Bessastöðum kl. 10:00 að morgni fimmtudagsins 10. júní að viðstaddri ríkisstjórn Íslands og handhöfum forsetavalds. Í kjölfarið fylgir viðræðufundur forseta landanna en síðan munu þeir ræða við blaðamenn kl. 11:15. Frá Bessastöðum heldur forseti Eistlands í Höfða þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri tekur á móti hinum eistnesku gestum. Þá mun forseti Eistlands heimsækja Alþingi. Þar verður forseti Eistlands ávarpaður úr forsetastóli en síðan mun forsetinn eiga fund með fulltrúum stjórnmálaflokka á Alþingi og forseta Alþingis Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur.

Eftir að forseti Eistlands hefur gengið um handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu í fylgd dr. Guðrúnar Nordal forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar hefst málþing kl. 15:00 á efri hæð hússins undir heitinu Tveir áratugir frá sjálfstæði: Eistland í samfélagi þjóðanna (Two Decades from Independence – Estonia in the International Community). Þar mun forseti Eistlands flytja fyrirlestur, svara að honum loknum spurningum fundargesta og taka þátt í umræðum. Málþingið er öllum opið.

Að kvöldi fyrri dags hinnar opinberu heimsóknar býður forseti Íslands til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Eistlands.

Fyrsti áfangastaður forseta Eistlands föstudaginn 11. júní er Hellisheiðarvirkjun. Þar munu Hjörleifur Kvaran forstjóri Orkuveitunnar og Guðlaugur Gylfi Sverrisson stjórnarformaður bjóða gesti velkomna en að því búnu verður gengið til málþings þar sem fjallað verður um nýtingu hreinnar orku, bráðnun jökla og loftslagsmál. Auk Hjörleifs Kvaran munu þau Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Ingvar Birgir Friðleifsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, Gréta Gunnarsdóttir sviðsstjóri hjá utanríkisráðuneytinu, Hólmfríður Sigurðardóttir forstöðumaður og Helgi Björnsson prófessor við Háskóla Íslands halda stutt erindi og svara fyrirspurnum.

Frá Hellisheiðarvirkjun halda hinir eistnesku gestir til Hellu á Rangárvöllum þar sem skipulögð hefur verið dagskrá helguð nýlegum eldsumbrotum og viðbrögðum við þeim. Magnús Tumi Guðmundsson prófessor fjallar um eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, Kjartan Þorkelsson sýslumaður gerir grein fyrir skipulagi almannavarna og rýmingaráætlunum vegna eldgosa á þessu svæði, Sigurgeir Guðmundsson formaður Landsbjargar lýsir starfi björgunarsveita á tímum náttúruhamfara, Elvar Eyvindsson sveitarstjóri á Hvolsvelli fjallar um viðbrögð sveitarstjórna og annarra stjórnvalda við þeim vanda sem eldgosinu fylgdi og loks mun Berglind Hilmarsdóttir bóndi gera grein fyrir því hvaða áhrif eldgosið hafði á daglegt líf bænda á þessum slóðum.

Síðdegis föstudaginn 11. júní munu forseti Eistlands og fylgdarlið fara að Gullfossi og Geysi áður en þau koma til Þingvalla þar sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tekur á móti gestunum. Eftir viðræðufund forseta Eistlands og forsætisráðherra býður forsætisráðherra til kvöldverðar á Þingvöllum.

Forseti Eistlands og fylgdarlið halda af landi brott að morgni laugardagsins 12. júní.