Veftré Print page English

Thor gagnaver


Forseti er viðstaddur og flytur ávarp við opnun fyrsta gagnaversins á Íslandi sem Thor Data Center hefur stofnsett í Hafnarfirði. Fyrirtækið nýtir nýja tækni á þessu sviði, hina hreinu orku sem fæst á Íslandi og hagstæð skilyrði til loftkælingar vegna hitastigs og vinds á Íslandi. Jafnframt var undirritaður samningur við Opera Software sem felur Thor gagnaveri að varðveita gögn sín en Opera er meðal öflugustu fyrirtækja í Evrópu á sínu sviði. Í ávarpi sínu vék forseti að nauðsyn þess að tvinna saman nýtingu hreinnar orku og atvinnutækifæri sem upplýsingatæknin skapar. Ísland væri á margan hátt kjörinn staður fyrir gagnaver. Fyrir rúmum þremur árum hefðu slík gagnaver verið umræðuefni á fundi forseta með Bill Gates, stofnanda Microsoft, og nú væri hið nýja fyrirtæki í Hafnarfirði að sanna og sýna hvað hægt væri að gera. Kynslóð ungra frumkvöðla hefði sýnt forystu og þjóðinni nýjar leiðir í atvinnumálum.