Veftré Print page English

Ráðstefna í Lissabon


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, þriðjudaginn 18. maí, setningarræðu á alþjóðlegri ráðstefnu í boði Norður-Suður stofnunarinnar (North-South Centre) sem starfar á vegum Evrópuráðsins. Ráðstefnan bar heitið The 21st Century: A Century of Global Interdependence and Solidarity og var haldin í ráðhúsi Lissabonborgar í Portúgal. Norður-Suður stofnunin var sett á laggirnar fyrir tuttugu árum á grundvelli samþykkta þings Evrópuráðsins, en Ólafur Ragnar Grímsson skipulagði fyrir hönd Evrópuráðsins viðamikla evrópskra þingmannaráðstefnu sem haldin var í Lissabon árið 1984 þar sem sú stefna var mótuð. Forsetanum var boðið að halda setningarræðu ráðstefnunnar m.a. vegna hlutverks hans í þessari stefnumótun.

Í ræðu sinni fjallaði forsetinn um þær miklu breytingar sem orðið hafa í samskiptum Evrópuríkja og þróunarlanda og hvernig breytt valdahlutföll í veröldinni sköpuðu nýjan grundvöll fyrir stefnumótun og alþjóðlega samvinnu. Hann rakti hvernig hættan á óafturkræfum loftslagsbreytingum væri nú sameiginlegur vandi allra ríkja. Breytingar á orkukerfum gegndu lykilhlutverki í þeirri baráttu og þróunarlönd hefðu fjölda tækifæra sem tækniþróun undanfarinna ára hefði fært þeim. Jafnframt nefndi forsetinn að skortur á drykkjarvatni, erfiðleikar við öflun fæðu, fjölgun flóttamanna vegna náttúruhamfara og skertra landsgæða sem og hætturnar sem fylgdu hækkun sjávarborðs sýndu að örlög allra þjóða væru nú samofin.

Ráðstefnuna sótti fjöldi sérfræðinga sem og fulltrúar alþjóðastofnana og aðildarríkja Evrópuráðsins. Meðal annarra frummælenda á ráðstefnunni voru Mário Soares fyrrverandi forseti Portúgals, Nyamko Sabuni jafnréttismálaráðherra Svíþjóðar, Jorge Sampaio fyrrverandi forseti Portúgals, José Vera Jardim varaforseti portúgalska þingsins, Nawal El Saadawi rithöfundur frá Egyptalandi, Abderrahman Youssoufi fyrrverandi forsætisráðherra Marokkós, Marguerita Barankitse stofnandi „Maison Shalom“ í Búrúndí og Bogaletch Gebre stofnandi  Kembatta velferðarmiðstöðvar fyrir konur (Kembatta Women’s Welfare Centre) í Eþíópíu.

Forseti Íslands átti jafnframt fund í Lissabon með Jorge Sampaio fyrrverandi forseta Portúgals og forstöðumanni bandalags ólíkra menningarheima sem starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna (UN High Representative for the Alliance of Civilisations) en markmið þess er að auka skilning og virðingu milli ólíkra trúarbragða og menningarheima. Fram kom á fundinum að Jorge Sampaio hefur áhuga á því að kynna sér hvernig íslenskt samfélag hefur brugðist við fjölgun fólks frá ólíkum heimshlutum sem flust hefur til Íslands á nýliðnum árum. Þá átti forseti einnig fund með Maud de Boer-Buquicchio aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins þar sem m.a. var rætt um mikilvægt framlag Íslands til Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins og þátttöku íslenskra þingmanna í stefnumótun þings Evrópuráðsins.  Forseti ræddi einnig við fréttamenn og fulltrúa portúgalskra fjölmiðla, blaða, tímarita og útvarpsstöðva. Í gærkvöldi sat forseti kvöldverð í boði forseta Portúgals og var viðstaddur verðlaunaafhendingu Norður-Suður verðlaunanna en þau hlutu í ár Mikhail Gorbasjov fyrrverandi forseti Sovétríkjanna og Rola Dashti þingmaður frá Kúveit og baráttukona fyrir réttindum kvenna.