Veftré Print page English

Heimsþing um jarðhita


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun, mánudaginn 26. apríl, ræðu við setningu Heimsþings um jarðhita (World Geothermal Congress) sem haldið er á Bali í Indónesíu en slík þing eru á fimm ára fresti. Susilo Bambang Yudhoyono forseti Indónesíu flutti einnig ræðu við setninguna en áður höfðu forsetarnir átt árangursríkan fund um samvinnu Íslands og Indónesíu þar sem einkum var lögð áhersla á jarðhita og framtíðarmöguleika hans á heimsvísu sem og samvinnu á sviði sjávarútvegs. Alþjóðasamtök um jarðhita (International Geothermal Association) buðu forseta Íslands að sækja þingið og flytja ræðu við setninguna.

Þingið sækja um 2.500 sérfræðingar, vísindamenn, tæknifræðingar, verkfræðingar og forystumenn á sviði orkumála víða að úr veröldinni og í þeim hópi eru um 100 Íslendingar. Einnig sækja þingið hátt á annað hundrað sérfræðingar í jarðhita frá tugum þjóðlanda sem lokið hafa námi við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Á fundi forseta Indónesíu og Íslands var rætt um hvernig íslensk tækniþekking getur gagnast við nýtingu hins gríðarmikla jarðhita sem finna má í Indónesíu. Forseti Indónesíu vísaði til árangurs Íslendinga á sviði jarðhitaframkvæmda, rannsókna, menntunar og þjálfunar. Þá var vikið að verkefnum í Indónesíu sem voru á dagskrá fundar forsetans með þáverandi iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, þegar hann heimsótti Indónesíu fyrir þremur árum. Forseti Indónesíu lýsti einnig miklum áhuga á því að auka samvinnu við Íslendinga á sviði sjávarútvegs og að námsmenn frá landi hans gætu sótt í auknum mæli Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Þá voru forsetarnir sammála um að mikilvægt væri að jarðhiti yrði á komandi árum öflugur þáttur í aukinni nýtingu hreinnar orku á veraldarvísu. Fund forseta Íslands og Indónesíu sátu einnig utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra Indónesíu auk indónesískra embættismanna. Af Íslands hálfu sátu fundinn Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Ingvar Birgir Friðleifsson skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Benedikt Höskuldsson frá utanríkisráðuneytinu og Örnólfur Thorsson forsetaritari.

Í ræðu sinni við setningu heimsþingsins lagði forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sérstaka áherslu á að næstu 5-15 ár fælu í sér gríðarleg tækifæri til að auka nýtingu jarðhita og líklegt væri að margvíslegar tækniframfarir myndu ryðja þá braut. Nefndi hann m.a. djúpborunarverkefnið sem unnið er að á Íslandi, framleiðslu smærri jarðhitavirkjana í stíl við þá sem fyrirtækið Kaldara hefur þróað, nýtingu jarðhita til að knýja loftkælingu eins og Reykjavík Geothermal vinnur að í Abu Dhabi og bindingu kolefnis á grundvelli tilrauna sem Orkuveita Reykjavíkur vinnur að í samvinnu við Háskóla Íslands og erlenda háskóla. Hvatti forseti þá fjölmennu sveit sem sækir heimsþing jarðhitageirans til að beita sér af krafti fyrir slíkum þáttaskilum. Þá vakti hann sérstaka athygli á að þróunarlönd væru á margan hátt vel í sveit sett til að nýta sér jarðhita og aðra umhverfisvæna orkugjafa.

Í tengslum við heimsþingið er viðamikil sýning á jarðhitatækni og kynning á ýmsum framkvæmdum. Fjölmörg íslensk fyrirtæki taka þátt í sýningunni auk Útflutningsráðs og eru þar með myndarlega aðstöðu. Fjöldi fyrirlestra er haldinn á heimsþinginu en það starfar í mörgum málstofum þar sem m.a. eru kynntar niðurstöður margvíslegra rannsókna.

Þá verður forseti Íslands viðstaddur samkomu á vegum Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á morgun, þriðjudaginn 27. apríl, þar sem sérstaklega verður boðið öllum þeim sem stundað hafa nám á Íslandi.