Veftré Print page English

Heimsókn forseta Maldíveyja


Forseti Maldíveyja Mohamed Nasheed heimsækir Ísland á föstudag og laugardag til að kynna sér nýtingu hreinnar orku og sjávarútveg ásamt því að halda opinberan fyrirlestur um loftslagsbreytingar en hækkun sjávarborðs ógnar efnahagslífi landsins og sjálfri tilveru þjóðarinnar.

Þessi vinnuheimsókn var ákveðin á fundi forseta Maldíveyja með forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni á Heimsþingi hreinnar orku sem haldið var í Abu Dhabi í janúar. Forseti Maldíveyja mun eiga fund með forseta Íslands á Bessastöðum á morgun föstudaginn 12. mars klukkan 9:30.  Forsetarnir munu ræða við fréttamenn klukkan 10:30. Þá mun forseti Maldíveyja eiga fundi með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra, Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.

Laugardaginn 13. mars klukkan 13:15 mun forseti Maldíveyja halda fyrirlestur í Öskju í boði forseta Íslands og Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn, sem opinn er öllum almenningi, fjallar um hættuna sem stafar af loftslagsbreytingum og ber heitið „Maldives: Fighting climate change from the frontline“. Forseti Maldíveyja hefur á undanförnum árum vakið heimsathygli fyrir baráttu sína gegn loftslagsbreytingum. Fyrir nokkrum mánuðum hélt hann ríkisstjórnarfund á hafsbotni til að vekja athygli heimsbyggðarinnar á að Maldíveyjar gætu sokkið í sæ vegna bráðnunar íss og jökla, m.a. á norðurslóðum.

Þá munu forseti Maldíveyja og fylgdarlið hans sitja kynningarfundi um orkumál, sjávarútveg og bráðnun jökla á Íslandi og Grænlandi. Fjallað verður um nýtingu hreinnar orku á fundi í Hellisheiðarvirkjun þar sem forystumenn í orkumálum og sérfræðingar munu flytja erindi. Þá verður haldinn fundur um sjávarútvegsmál í Hafrannsóknarstofnuninni þar sem sérfræðingar í sjávarútvegi munu kynna árangur Íslendinga. Íslenskir jöklafræðingar og náttúruvísindamenn munu svo kynna forsetanum rannsóknir á íslenskum og grænlenskum jöklum og á hafstraumum á norðurslóðum. Sú kynning fer fram í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Í fylgdarliði forseta Maldíveyja eru meðal annars dr. Ahmed Shaheed utanríkisráðherra, embættismenn og sérfræðingar í alþjóðamálum.