Veftré Print page English

Alþjóða efnahagsþingið í Davos


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur þegið boð Alþjóða efnahagsþingsins (World Economic Forum) um að sitja ársþing þess í Davos í Sviss sem haldið er í þessari viku. Þingið sækir fjöldi forystumanna ríkja víða að úr veröldinni, fjölmenn sveit áhrifamanna í fjármálum, atvinnulífi og fjölmiðlun, sem og margir stjórnendur viðskiptabanka og seðlabanka. Þingið er einn helsti vettvangur skoðanaskipta og stefnumótunar í efnahagsmálum og er haldið í Davos á hverju ári.

Forseti mun taka þátt í umræðum í nokkrum málstofum á vettvangi alþjóðaþingsins sem og í aðalfundum þess. Þar verður meðal annars fjallað um viðbrögðin við hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, samstarf ríkja við endurskipulagningu fjármálakerfis sem og ný viðhorf í ljósi þeirrar reynslu sem kreppan hefur fært þjóðum heims.

Forseti hefur samþykkt beiðnir nokkurra fjölmiðla um viðtöl meðan á þátttöku hans í alþjóðaþinginu í Davos stendur. Einnig mun hann hitta að máli forystumenn ýmissa ríkja og aðra áhrifamenn í alþjóðamálum.

Þingið hefst í dag miðvikudaginn 27. janúar og tekur forseti þá þátt í umræðum um viðbrögð stjórnvalda við hinni alþjóðlegu fjármálakreppu og hvernig hægt sé að leggja grundvöll að auknum stöðugleika í framtíðinni. Alþjóðaþinginu lýkur laugardaginn 30. janúar en þann dag mun forseti einnig taka þátt í umræðum um hvernig endurreisn efnahagslífs geti komið í veg fyrir varanlegt atvinnuleysi.