Fundur með forseta Maldíveyja
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í vikunni fund með forseta Maldíveyja, Mohamed Nasheed, í Abu Dhabi en báðir sóttu Heimsþing hreinnar orku sem þar var haldið.
Loftslagsbreytingar ógna þjóðaröryggi Maldíveyja þar eð hækkun sjávarborðs, m.a. vegna bráðnunar íss á norðurslóðum, getur sökkt eyjunum á næstu áratugum. Forseti Maldíveyja hefur að undanförnu reynt að vekja athygli heimsbyggðarinnar á þessari aðsteðjandi hættu.
Á fundi forsetanna ræddu þeir samstarf þessara tveggja eyþjóða, Íslendinga og Maldíveyinga. Bæði löndin tengjast loftslagsbreytingum á afgerandi hátt sem kemur fram í bráðnun jökla og hugsanlegum breytingum á hafstraumum við strendur Íslands og hækkun sjávarborðs við Maldíveyjar. Samvinna landanna gæti orðið áhrifarík í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsbreytingum.
Fréttatilkynning.
Mynd.
Þá ræddu forsetarnir fiskveiðar og orkumál. Mohamed Nasheed hefur áhuga á að kynna sér reynslu og tækni Íslendinga á þessum sviðum, bæði með samstarfi sérfræðinga og með því að heimsækja Ísland.
Mohamed Nasheed hélt nýlega ríkisstjórnarfund á hafsbotni til að vekja athygli heimsbyggðarinnar á þeirri hættu sem landi hans er búin.