Veftré Print page English

Heimsþing hreinnar orku


Forseti flytur á morgun, fimmtudaginn 21. janúar, lokaræðuna á Heimsþingi hreinnar orku (World Future Energy Summit) sem haldið er í Abu Dhabi. Heimsþingið sækir fjöldi forseta, forsætisráðherra, umhverfisráðherra og orkuráðherra víða að úr veröldinni auk vísindamanna, tæknimanna, sérfræðinga og forystumanna í atvinnulífi. Markmið þingsins er að vísa veginn í átt að byltingu í orkubúskap heimsins þar sem sólarorka, vindorka, jarðhiti, vatnsorka og aðrir hreinir orkugjafar yrðu ráðandi.

Á þinginu sýna um 600 fyrirtæki og stofnanir á sviði hreinnar orku nýja tækni og vörur. Útflutningsráð hefur skipulagt þátttöku íslenskra fyrirtækja og sýningaraðstöðu á þinginu.

Forseti þáði boð stjórnvalda í Abu Dhabi um að sækja þingið á heimleið sinni frá Indlandi. Þetta er í þriðja sinn sem slíkt þing er haldið en forseti átti á sínum tíma þátt í að undirbúa hið fyrsta og flutti þá ræðu við opnunina.

Forseti hefur átt viðræður við fjölda ráðamanna sem sækja þingið. Einnig tók forseti þátt í hátíðlegri verðlaunaathöfn í gærkvöldi þar sem Zayed orkuverðlaunin (Zayed Future Energy Prize) voru afhent. Verðlaunin eru meðal hinna veglegustu í heimi, kennd við fyrrum leiðtoga landsins og nema 1,5 milljónum Bandaríkjadala.
Forseti á sæti í dómnefnd verðlaunanna en formaður hennar er dr. R.K. Pachauri, Nóbelsverðlaunahafi og formaður Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Verðlaunin voru nú veitt í annað sinn og féllu í hlut Toyota fyrirtækisins fyrir framlag þess til umhverfisvænnar umferðar með framleiðslu Prius bifreiðarinnar. Sérstakar viðurkenningar hlutu Indverjinn Amitabha Sadangi sem er frumkvöðull í útbreiðslu orkusparandi áveitukerfis í þágu fátækra bænda á Indlandi og forstjóri Suntech Power í Kína, dr. Zhengrong Shi fyrir byltingarkennda tækni við nýtingu sólarorku. Myndir.