Veftré Print page English

Samstarfsverkefni í Bangalore


Á síðasta degi opinberrar heimsóknar á Indlandi heimsækir forseti samstarfsaðila ýmissa íslenskra fyrirtækja í Bangalore. 

Dagurinn hófst með heimsókn til InfoSys, eins stærsta upplýsingatæknifyrirtækis í veröldinni, með um 100.000 starfsmenn. Þar var rætt um stofnun gagnavera á Íslandi og þróun og prófun hugbúnaðar á Íslandi sem nýta má á alþjóðlegum markaði í samstarfi við öfluga aðila. Forseti skoðaði einnig hið nýja og glæsilega svæði InfoSys í Bangalore þar sem er fjöldi nýrra bygginga en fyrirtækið rekur átta slík svæði á Indlandi. Meðalaldur starfsmanna fyrirtækisins er 26 ár.

Þá heimsótti forseti Hindustan Turbomachinery þar sem er verið að smíða jarðhitaver sem kemst fyrir í einum gámi og er nokkur megavött. Jarðhitaverið er þróað af íslenska tæknifyrirtækinu Kaldara sem falið hefur Indverjum smíði þess. Það fyrsta verður sett upp í Kenía í apríl og það næsta prófað við Hellisheiðarvirkjun á Íslandi. Gerð slíkra smárra jarðhitavera getur valdið byltingu í nýtingu jarðhita víða um heim. Íslenska fyrirtækið Alvar er einnig að ræða við Hindustan Turbomachinery um smíði bora sem auðveldað geta fyrstu stig við könnun á jarðhita.

Að því loknu heimsótti forseti Lotus rannsóknafyrirtækið sem prófar og þróar ný lyf á vegum Actavis en fyrirtækið hefur þrefaldað stærð sína frá því forseti var viðstaddur undirritun samnings Lotus og Actavis fyrir fimm árum. Fyrirtækið gegnir lykilhlutverki í framtíðarþróun Actavis.

Einnig tók forseti þátt í málþingi á vegum stofnunarinnar Mobility India sem hjálpar fötluðu fólki í þorpum og í fátækari hverfum Bangalore að lifa eðlilegu lífi. Íslenska fyrirtækið Össur hefur gerst samstarfsaðili Mobility India og var því samstarfi fagnað sérstaklega á málþinginu. Forseti skoðaði einnig verkstæði og starfsemi stofnunarinnar og hélt ræðu á málþinginu um mikilvægi þess að slíkt samstarf gæti orðið til að auðvelda fólki að njóta lífsins á nýjan leik.

Um kvöldið sat forseti hátíðarkvöldverð í boði ríkisstjóra Karnatakafylkis Hans R. Bhardwaj þar sem viðstaddir voru fulltrúar margra íslenskra aðila sem eiga í samstarfi í Bangalore.