Veftré Print page English

Samvinna við TATA - Málþing


Í heimsókn sinni til Indlands átti forseti árangursríkan fund með Ratan Tata, forstjóra Tata samsteypunnar sem er eitt öflugasta fyrirtæki Indlands á heimsvísu, umsvifamikið í margvíslegum iðnaði, upplýsingatækni, bílaframleiðslu og fleiri greinum , bæði í Asíu, Evrópu og Ameríku. Ratan Tata þáði boð forseta um að heimsækja Ísland til að kynna sér nánar árangur landsins á ýmsum sviðum. Fréttatilkynning. Myndir

            Á fundinum var ákveðið að Tata fyrirtækið myndi senda sérfræðing í orkumálum til Íslands til að ræða samvinnu um nýtingu jarðhita á Indlandi en fyrirtækið hefur nýlega kortlagt jarðfræðilegar aðstæður á Indlandi í þessu skyni. Þá var einnig áhugi á að kynnast hugsanlegum rekstri gagnavera á Íslandi, einkum með tilliti til sæstrengja sem liggja frá Íslandi til Evrópu og Bandaríkjanna. Einnig kæmi til greina að flytja rafmagnsbíla sem Tata framleiddi til Íslands til að prófa hæfni þeirra og getu við ólíkar veðuraðstæður. Nýting roðs í tískuvörur væri og áhugaverð frá sjónarmið Tata samsteypunnar.

            Á fundinum með forseta Íslands lýsti Ratan Tata yfir eindregnum stuðningi við frumkvæði forseta að samvinnu indverskra og íslenskra jöklafræðinga og annarra náttúruvísindamanna um rannsóknir á Himalajafjöllum og lýsti sig reiðubúinn til að styrkja slíkt samstarf með sérstakri áherslu á menntun og þjálfun indverskra stúdenta á Íslandi.

            Í dag voru haldin tvö málþing í Delí. Fjallaði annað um samvinnu Indlands og Íslands á sviði orkumála, jarðvarma og vatnsorku, og sótti það fjöldi áhrifamanna og sérfræðinga á þessu sviði. Þar lagði R.K. Pachauri forstjóri TERI stofnunarinnar og formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna til að stofnað yrði samstarfsráð Indlands og Íslands í orkumálum með þátttöku sérfræðinga, tæknifólks, fyrirtækja og fulltrúa stjórnvalda. Markmið þess væri að greiða fyrir þátttöku Íslendinga í nauðsynlegri orkubyltingu á Indlandi.

            Meðal ræðumanna á málþinginu voru auk dr. Pachauri og forseta Íslands Farook Abdullah ráðherra nýrrar og endurnýjanlegrar orku, Preneet Kaur ráðherra í indverska utanríkisráðuneytinu, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Gunnar Ingi Gunnarsson framkvæmdastjóri Verkís, Bjarni Bjarnason forstjóri Landvirkjun Power, Hákon Skúlason frá Kaldara og Grímur Björnsson frá Reykjavík Geothermal.

            Síðara málþingið fjallaði um sameiginleg rannsóknarverkefni Indverja og íslenskra vísindamanna á Himalajasvæðinu: jökla, vatnsbúskap og jarðvegsþróun. Auk forseta Íslands tóku þar til máls dr. Guðrún Gísladóttir prófessor við Háskóla Íslands, Rattan Lal prófessor við Ríkisháskólann í Ohio, einn fremsti sérfræðingur heims í jarðvegsfræðum, dr. Syed Hasnain sérfræðingur í jöklarannsóknum við TERI stofnunina, auk þess sem Dagfinnur Sveinbjörnsson flutti erindi dr. Helga Björnssonar prófessors við Háskóla Íslands. Málþingið var haldið í höfuðstöðvum rannsóknarstofnunarinnar TERI og undir stjórn dr. Pachauri.

            Í lok málþingsins var undirritaður samningur milli Háskólans í Reykjavík og KIIT háskólans á Indlandi.

            Forseti var einnig viðstaddur fyrirlestur dr. Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors við Háskóla Íslands sem hann hélt í boði Nehruháskólans. Í fyrirlestrinum fjallaði hann um íslensk stjórnmál með hliðsjón af stjórnmálaþróun á Norðurlöndum.

            Opinberri heimsókn forseta Íslands lýkur á morgun í Bangalore þar sem forseti mun eiga fundi með forystumönnum fyrirtækja í upplýsingatækni en borgin er miðstöð þeirrar greinar á Indlandi og ein sú helsta í heiminum. Einnig mun forseti heimsækja Lotus rannsóknarverið sem Actavis starfrækir á Indlandi og Hindustan Turbomarchinery Ltd. en það fyrirtæki er nú að framleiða frumgerð lítils og færanlegs jarðorkuvers fyrir íslenska fyrirtækið Kaldara. Fyrirhugað er að þessi frumgerð verði sett upp við Hellisheiðarvirkjun.

            Annað kvöld mun forseti sitja hádegiskvöldverð í boði fylkisstjóra Karnatakafylkis.