Veftré Print page English

Nehruverðlaunin


Forseti Indlands frú Pratibha Patil afhenti fyrr í dag forseta Nehruverðlaunin við hátíðlega athöfn í Delí að viðstöddum forsætisráðherra Indlands Manmohan Singh, varaforsetanum Mohammad Hamid Ansari, ráðherrum og fjölda indverskra áhrifamanna ásamt Soniu Gandhi leiðtoga Kongressflokksins. Ræða forsetaMyndir

Í yfirlýsingu sem lesin var við athöfnina var lýst framlagi Ólafs Ragnars Grímssonar til afvopnunar og friðarmála þegar hann fyrir rúmum tuttugu árum hafði forystu um myndun friðarfrumkvæðis sex þjóðar¬leiðtoga; þátttöku hans í baráttunni fyrir friði og þróun fátækari ríkja heims, einkum með störfum í forystu alþjóðlegra þingmanna¬sam-taka, og með því að móta stefnu Evrópuráðsins á sínum tíma varðandi samvinnu við þjóðirnar í suðri. Þá var einnig getið baráttu hans á undanförnum árum gegn loftslagsbreytingum og fyrir aukinni samvinnu vísindamanna og fræðimanna á því sviði sem og að kynna nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita, víða um heim. Með störfum sínum hefði hann lagt mikið af mörkum í baráttunni fyrir friði, lýðræði og framförum allra þjóða sem og verndun umhverfis jarðarinnar; m.a. á síðari árum með því að vekja athygli á nauðsyn aukinna rannsókna varðandi jökla og gróðurfar í Himalajafjöllum en þar er að finna mikilvægustu forðabúr vatns í Asíu.
Við athöfnina fluttu forseti Indlands Pratibha Patil, varaforseti landsins Mohammad Hamid Ansari, sem einnig var formaður stjórnarnefndar Nehruverðlaunanna, ræður þar sem ítarlega var fjallað um framlag forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, á alþjóðavettvangi á undanförnum áratugum.

Að því loknu flutti forseti Íslands þakkarræðu þar sem hann rakti samstarf sitt við Indiru og Rajiv Gandhi sem bæði voru forsætisráðherrar Indlands og fjölmarga aðra forystumenn landsins. Hann gerði síðan grein fyrir hvernig Íslendingar hefðu í krafti vísinda og rannsókna glímt við eldfjöll, jarðhita, jökla og auðnir sem setja sterkan svip á íslenska náttúru. Í krafti þeirrar þekkingar sem þannig hefði þróast gæti Ísland nú fært Indverjum mikilvæga reynslu og tækni. Þá rakti forseti einnig hvernig íslenskir jöklafræðingar og jarðvegsvísindamenn gætu orðið öflugir þátttakendur í að auka þekkingu Indverja og annarra þjóða í Asíu á því sem er að gerast á Himalajasvæðinu.
Einnig vék forseti að því að Norðurheimskautsráðið, sem stofnað hefði verið þegar kalda stríðinu lauk, væri fróðlegt fordæmi um samvinnu ríkja og lýsti forseti hugmyndum sínum um hliðstætt Himalajaráð sem gæti orðið vettvangur fyrir samvinnu á sviði rannsókna og vísinda og hjálpað íbúum Himalajasvæðisins að glíma við afleiðingar loftslagsbreytinga.

Forseti tilkynnti að hann hefði ákveðið að verja verðlaunafénu sem nemur um 13,5 milljónum íslenskra króna til að styrkja samstarf íslenskra og indverskra jöklafræðinga og jarðvegsvísindamanna og gefa indverskum háskólastúdentum kost á að öðlast þekkingu og þjálfun á Íslandi.

Að lokinni hátíðarathöfn hittu forsetahjónin Soniu Gandhi, leiðtoga Kongressflokksins þar sem rætt var um hugmyndir forseta varðandi vísindasamstarf á Himalajasvæðinu og tillögu hans að Himalajaráði. Einnig var fjallað um margháttaða samvinnu forseta við Gandhi¬fjölskylduna og aðra indverska forystumenn á undanförnum áratugum.

Þá átti forseti einnig fund með Sushma Swaraj leiðtoga stjórnarand¬stöðunnar á indverska þinginu þar sem fjallað var um þróun efnahagslífs á Indlandi og horfurnar á komandi árum. Swaraj lýsti einnig miklum áhuga á að kynna sér nánar hvernig nýta mætti jarðhita á Indlandi og þá reynslu sem Íslendingar hafa aflað sér á þessu sviði.

Í kvöld sitja forsetahjónin og aðrir íslenskir gestir hátíðarkvöldverð sem forseti Indlands Pratibha Patil býður til í hinni sögufrægu forsetahöll Rashtrapati Bhavan.