Forseti Íslands
The President of Iceland
Indland: samvinna og stuðningur
Í viðræðum forseta við forsætisráðherra Indlands Manmohan Singh, utanríkisráðherrann S. M. Krishna og aðra ráðamenn að lokinni hátíðarmóttöku í Delí við hina sögufrægu forsetahöll Rastrapati Bhavan kom fram eindreginn vilji indverskra ráðherra til að efla samvinnu við Íslendinga, kanna möguleika á sameiginlegum verkefnum, fjárfestingum og vísindarannsóknum. Indverjar mætu mikils vináttu við Íslendinga og teldu mikilvægt að þjóðin næði sem fyrst sínum fyrri styrk. Indland er fjölmennasta lýðræðisríki veraldar og eitt af stærstu hagkerfum í heimi.
Við forsetahöllina tók forseti Indlands Pratibha Patil og Manmohan Singh forsætisráðherra á móti forsetahjónunum Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff. Við upphaf hátíðarmóttökunnar var hleypt af 21 fallbyssuskoti en síðan voru leiknir þjóðsöngvar landanna. Þá kannaði forseti Íslands heiðursvörð. Að lokinni athöfninni héldu forsetahjón að leiði Mahatma Gandhi og lögðu þar blómsveig frá íslensku þjóðinni.
Á fundi forseta með Manmohan Singh forsætisráðherra var rætt um reynslu Íslendinga af fjármálakreppunni og viðbrögð þjóðarinnar við henni, sóknarfæri í orkumálum, vísindum og tækni. Lýsti forsætisráðherrann stuðningi við Íslendinga á þessum tímum erfiðleika og sagðist þess fullviss að þjóðin næði sér fljótt á strik. Hann lýsti miklum áhuga á samvinnu við Íslendinga á sviði jarðhita en Indverjar kanna nú í vaxandi mæli möguleika sína í þeim efnum. Þá væri uppbygging gagnavera á Íslandi áhugaverð sem og fjölmörg önnur tækifæri til samvinnu þjóðanna á sviði upplýsingatækni. Þá nefndi forsætisráðherrann áhuga Indverja á því að skoða Keflavíkurflugvöll sem samgöngumiðstöð varðandi flutning á fólki og vörum til Evrópu og Vesturheims. Einnig var rætt um möguleika á olíuvinnslu á Drekasvæðinu en Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri mun eiga síðar í dag fundi með stjórnendum stærsta ríkisolíufélags á Indlandi. Forsætisráðherrann hvatti eindregið til að slík samvinna yrði könnuð. Í gær sat forseti Íslands kvöldverð í boði fornvinar síns Murli Deora olíumálaráðherra Indlands þar sem einnig voru fjölmargir áhrifamenn úr indverskum olíuiðnaði.
Þá ræddi forseti Íslands einnig við Manmohan Singh forsætisráðherra um framlag íslenskra jöklafræðinga og jarðvísindamanna til rannsókna á Himalayasvæðinu og mikilvægi slíkra rannsókna fyrir athuganir á loftslagsbreytingum, vatnsbúskap og fæðuöflun Indverja, Kínverja og fleiri þjóða á vatnasvæði Himalayafjalla. Fagnaði forsætisráðherra Indlands þátttöku íslenskra vísindamanna í að auka skilning Indverja á því sem væri að gerast á Himalayasvæðinu og þeim áhrifum sem þær breytingar gætu haft á lífsskilyrði um milljarðs manna.
Í viðræðunum við S. M. Krishna utanríkisráðherra var einnig rætt um viðbrögð Íslendinga við fjármálakreppunni, samvinnu þjóðanna á alþjóðavettvangi, mikilvægi lýðræðis og mannréttinda á 21. öld og sameiginlegar rannsóknir indverskra og íslenskra náttúruvísindamanna á Himalayasvæðinu.
Í hádeginu var efnt til málþings um viðskiptasamvinnu milli Íslands og Indlands en það var skipulagt af Útflutningsráði Íslands og þremur viðskiptaráðum Indlands (ASSOCHAM, CII, FICCI). Á málþinginu fluttu ræður af Íslands hálfu forseti Íslands og Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Útflutningsráðs. Þá var einnig skrifað undir tvo samninga. Annar var milli íslenska upplýsingatæknifyrirtækisins LS Retail og indverska fyrirtækisins Dynamic Vertical Software, en samningurinn er gerður með stuðningi Microsoft. Hann miðar að uppbyggingu þekkingarmiðstöðvar á Indlandi. Hinn samningurinn var milli Össurar og indverskra samstarfsaðila og er fyrstu áfanginn á þeirri vegferð að framleiðsla Össurar haldi innreið sína á Indlandi. Þá var á málþinginu einnig lýst yfir stofnun indversk-íslensks viðskiptaráðs sem í eiga sæti fjölmargir áhrifamenn úr indversku viðskiptalífi.
Í lok heimsóknar til Mumbai í gær tók forseti þátt í kynningu á möguleikum til kvikmyndagerðar á Íslandi. Þá kynningu sóttu fjölmargir áhrifamenn úr indverskum kvikmyndaiðnaði, kvikmyndaleikstjórar og framleiðendur en Indverjar hafa í vaxandi mæli gert kvikmyndir sínar í öðrum löndum. Þar kynnti Einar Hansen Tómasson framkvæmdastjóri Film in Iceland þau tækifæri sem erlendum kvikmyndagerðarmönnum stæðu til boða á Íslandi sem og þá þekkingu og reynslu sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hefðu yfir að ráða.
Síðar í dag mun forseti eiga fleiri fundi með indverskum ráðamönnum, taka við Nehru verðlaununum og sitja hátíðarkvöldverð sem forseti Indlands heldur forsetahjónunum til heiðurs í forsetahöllinni.
Letur: |
| |