Veftré Print page English

Forseti á þingi UNIDO


Í ræðu sinni rakti forseti Íslands hvernig nýting jarðhita, sólar- og vindorku gæti gagnast þróunarlöndunum á hagkvæman hátt þar eð sníða mætti umfang orkuframkvæmda að þörfinni á hverjum tíma, að hagsmunum þorpa og lítilla byggða sem og stórborga. Þá lýsti forseti árangri Íslendinga á þessu sviði og merku starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem nú hefur menntað hátt í 400 sérfræðinga frá rúmlega 30 þróunarlöndum.

Forseti nefndi einnig hvernig nýting á jarðhita og vatnsorku hefði styrkt efnahagslíf Íslendinga á undanförnum áratugum. Heimili og fyrirtæki byggju við lægra orkuverð en víðast hvar í veröldinni og þessi árangur hefði auðveldað Íslendingum að glíma við efnahagserfiðleikana sem fylgdu falli bankanna og gæti orðið meginstoð þeirrar uppbyggingar sem myndi gera Íslendingum kleift að styrkja efnahagslíf og velferð þjóðarinnar á ný.

Forseti átti einnig viðræður í Vínarborg við Yumkella framkvæmdastjóra UNIDO og bauð honum að koma í kynningarheimsókn til Íslands. Þá átti forseti viðræður við ýmsa forystumenn aðra sem sækja ársþingið.