Veftré Print page English

Dómnefnd orkuverðlauna


Forseti situr fund dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna (Zayed Future Energy Prize) en þau eru meðal veglegustu verðlauna veraldar, veitt fyrir nýjungar og forystu á vettvangi hreinnar orku. Fundurinn er haldinn í Abu Dhabi enda eru verðlaunin kennd við fyrrum leiðtoga landsins. Þau verða afhent á Heimsþingi um orkumál framtíðar (World Future Energy Summit) sem haldið verður í Abu Dhabi dagana 18.-21. janúar næstkomandi. Verðlaunaupphæðin nemur 1,5 milljónum Bandaríkjadala og bárust yfir 600 tilnefningar víða að úr veröldinni. Auk forseta Íslands skipa dómnefndina dr. R. K. Pachauri, formaður Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), Susan Hockfield rektor MIT háskólans í Bandaríkjunum, Norman Foster arkitekt og hönnuður fjölmargra þekktra bygginga víða um heim, Browne lávarður og fyrrum forstjóri BP og Helene Pelosse framkvæmdastjóri hinnar nýju alþjóðastofnunar endurnýjanlegrar orku, IRENA.