Forseti Íslands
The President of Iceland
Forvarnardagurinn. Fundur í Háteigsskóla
Boðið er til kynningar- og blaðamannafundar um Forvarnardaginn í Háteigsskóla mánudaginn 28. september klukkan 11:00. Viðstaddir kynninguna verða nemendur og stjórnendur skólans, sem og forsvarsmenn þeirra fjöldasamtaka og aðila sem standa að Forvarnardeginum. Hann verður haldinn í grunnskólum um allt land miðvikudaginn 30. september næstkomandi.
Á kynningunni flytja stutt ávörp Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ, Margrét Tómasdóttir skátahöfðingi, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir aðstoðarforstjóri Actavis og Gunnar Einarsson bæjarstjóri, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fundurinn verður haldinn í skólastofu B303 í Háteigsskóla og munu nokkrir grunnskólanemar taka þátt í honum. Nemarnir verða sérstakir talsmenn Forvarnardagsins í ár. Á fundinum verður sýnt kynningarmyndband Forvarnardagsins, þar sem meðal annars koma fram þau Páll Óskar Hjálmtýsson, Ragna Ingólfsdóttir, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Sigfús Sigurðsson og mæðgurnar Guðrún Gunnarsdóttir og Ólöf Jara Valgeirsdóttir.
Forvarnardagurinn, sem nú er haldinn í fjórða sinn, er byggður á niðurstöðum íslenskra rannsókna sem sýna hvaða ráð duga best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi, samverustundir með fjölskyldunni og að fresta sem lengst að neyta áfengis.
Á Forvarnardaginn fara fram umræður nemenda í grunnskólunum um hugmyndir þeirra og tillögur varðandi nýjungar og breytingar á æskulýðs- og íþróttastarfi, fjölskyldulífi og öðrum þeim þáttum sem eflt geta forvarnir. Reynslan hefur sýnt mikla hugmyndaauðgi nemenda í slíkum samræðum. Allar hugmyndir og tillögur nemenda verða teknar saman og settar í skýrslu sem birt er á vefsíðu dagsins, forvarnardagur.is. Þá gefst nemendum kostur á að taka þátt í ratleik á vefsíðum íþrótta- og ungmennasamtaka og eru þar verðlaun í boði.
Undanfarin 10 ár hefur markvisst forvarnarstarf verið unnið á Íslandi. Það starf hefur skilað sér í því að vímuefnaneysla íslenskra ungmenna er með því lægsta sem þekkist. Í alþjóðlegri rannsókn sem unnin var árið 2007 í 38 löndum í Evrópu kemur fram að daglegar reykingar og ölvunardrykkja íslenskra ungmenna í síðasta bekk grunnskóla er sú lægsta af öllum löndunum 38.
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðstandendur Forvarnardagsins, sem skipulagður er með stuðningi lyfjafyrirtækisins Actavis, eru Bandalag íslenskra skáta, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rannsóknir og greining í Háskólanum í Reykjavík, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Ungmennafélag Íslands.
Letur: |
| |