Veftré Print page English

Loftslagsbreytingar. Dr. Pachauri á Íslandi


Hinn heimskunni vísindamaður og áhrifamaður í alþjóðlegum umræðum um loftslagsbreytingar dr. Rajendra Pachauri, formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, heimsækir Ísland laugardaginn 19. september í boði forseta . Dr. Pachauri tók við friðarverðlaunum Nóbels fyrir hönd IPCC árið 2007 en Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna hlaut þá einnig sömu verðlaun.

Dr. Pachauri flytur í boði Háskóla Íslands fyrirlestur sem opinn verður almenningi og mun hann fjalla um samspil vísinda og stjórnmála í glímunni við loftslagsbreytingar. Fyrirlesturinn verður í Hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 11:30 á laugardaginn og munu forseti og háskólarektor einnig flytja stutt ávörp.



Dr. Pachauri mun einnig hitta að máli íslenska vísindamenn sem fengist hafa við rannsóknir á loftslagsbreytingum og bindingu kolefnis og hitta ýmsa áhrifamenn í íslenskum þjóðmálum. Að loknum hádegisverði á Bessastöðum eða um klukkan 14:30 verður hann reiðubúinn að ræða við blaðamenn og aðra fulltrúa íslenkra fjölmiðla.

Auk þess að hafa stýrt loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna á undanförnum árum og haft mótandi áhrif á skýrslu nefndarinnar er Pachauri jafnframt forstöðumaður vísinda- og tæknistofnunarinnar TERI á Indlandi sem fæst öðru fremur við rannsóknir á orkunýtingu og umhverfisvænum orkugjöfum. Samstarfssamningur var gerður milli Háskóla Íslands og TERI í tengslum við heimsókn forseta Íslands til Indlands í febrúar 2008.