Sendiherra Kanada
Forseti á fund með nýjum sendiherra Kanada á Íslandi hr. Alan Bones sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um aukna samvinnu Íslands og Kanada á undanförnum árum og vaxandi viðurkenningu á því að norðurslóðir verði æ mikilvægari, einkum í ljósi orkuauðlinda sem þar er að finna og nýrra siglingaleiða sem kunna að opnast vegna loftslagsbreytinga. Einnig var fjallað um samfélag Vesturíslendinga í Kanada, hve vel hefur tekist að varðveita arfleifð landnemanna og rækta áhuga nýrra kynslóða á henni. Þátttakan í
Snorraverkefninu á undanförnum árum sé til marks um það sem og listahátíðir ungs fólks sem efnt hefur verið til í Winnipeg. Að loknum fundinum var móttaka á Bessastöðum þar sem boðið var áhrifafólki úr atvinnulífi, menningu, þjóðmálum og öðrum sviðum sem sérstök tengsl hefur við Kanada.