Veftré Print page English

Þjóðhátíð í Litháen


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka í dag mánudaginn 6. júlí þátt í hátíðarhöldum í Litháen í tilefni þess að 1000 ár eru frá upphafi þjóðarinnar. Forseti Litháens Valdas Adamkus bauð forseta Íslands að taka þátt í hátíðarhöldunum en einnig verða viðstaddir aðrir þjóðhöfðingjar Norðurlanda, þjóðhöfðingjar Eystrasaltslanda, Póllands og Úkraínu auk ýmissa annarra forystumanna.

Hátíðarhöldin hefjast á hádegi með hátíðarguðþjónustu í dómkirkju höfuðborgarinnar Vilnius og síðan verður afhjúpað minnismerki í tilefni af þúsund ára afmælinu. Að lokinni ræðu forseta Litháens mun forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytja ávarp.

Hinir erlendu þjóðhöfðingjar munu skoða sýningar um sögu Litháens sem efnt hefur verið til af þessu tilefni ásamt sýningu um listir og menningu við Eystrasalt. Að loknum hádegisverði sem forseti Litháens býður til munu hátíðarhöldin halda áfram með ýmsum viðburðum en þjóðhátíðinni lýkur með samkomu í garði forsetahallarinnar. Sjónvarpað og útvarpað verður frá öllum hátíðarhöldunum.