Sjálfstjórn Grænlands
Forseti tekur þátt í fjölsóttum hátíðarhöldum í höfuðborg Grænlands Nuuk í tilefni af gildistöku nýrra sjálfstjórnarlaga sem færa Grænlendingum aukið vald í eigin málum. Hátíðarhöldin hófust á gamla hafnarsvæðinu þar sem elstu byggingar bæjarins mynduðu fagra umgjörð um hina virðulegu athöfn. Borgarstjórinn í Nuuk og forsætisráðherra Grænlandsstjórnar fluttu ræður. Athöfnina sóttu þúsundir Grænlendinga og auk þess fjölmargir erlendir gestir auk dönsku konungsfjölskyldunnar. Síðan var gengið til guðþjónustu og að henni lokinni var athöfn í þinghúsinu þar sem forseti grænlenska þingsins og forsætisráðherra Dana fluttu ræður og Margrét Danadrottning afhenti sjálfstjórnarlögin. Að loknum hádegisverði átti forseti ásamt öðrum fulltrúum Íslands stuttan fund með forsætisráðherra Grænlands. Í gær sátu forsetahjónin ásamt öðrum erlendum gestum kvöldverð í boði grænlenska þingsins en viðburðum dagsins lýkur með hátíðarkvöldverði í tilefni af þessum sögulegu tímamótum.
Myndir.