Veftré Print page English

Smáþjóðaleikarnir 2009


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú taka í kvöld, mánudaginn 1. júní, þátt í setningarathöfn Smáþjóðaleikanna sem haldnir eru á Kýpur. Ríflega 170 Íslendingar taka þátt í leikunum: íþróttamenn, þjálfarar, dómarar, fararstjórar og forystufólk Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Auk Íslands og Kýpur taka Andorra, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó og San Maríno þátt í Smáþjóðaleikunum sem haldnir eru annað hvert ár. Íslendingar keppa í frjálsum íþróttum, sundi, fimleikum, júdó, körfuknattleik, borðtennis, blaki, strandblaki, siglingum, tennis og skotíþróttum.

Smáþjóðaleikarnir hafa verið mikilvægur þáttur í þjálfun íslensks íþróttafólks en margir sem síðar hafa keppt á Evrópumótum og Ólympíuleikum hafa hlotið fyrstu alþjóðlegu þjálfun sína á Smáþjóðaleikunum.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands bauð forsetahjónunum að sækja leikana en þau munu fylgjast með keppni í fjölmörgum greinum. Forsetinn er verndari ÍSÍ.

Forseti Íslands mun einnig eiga fund með Dimitris Christofias forseta Kýpur fimmtudaginn 4. júní. Þá mun forseti eiga fundi með ýmsum öðrum ráðamönnum landsins og kynna sér nýtingu hreinnar orku á Kýpur. Fyrir nokkrum árum afhenti forseti Íslands Kýpverjum alþjóðleg orkuverðlaun fyrir að vera sú þjóð sem á tilteknu árabili náði mestum árangri í að auka hlutfall hreinnar orku í orkubúskap sínum.