Veftré Print page English

Heimsókn í Hvolsskóla


Forseti og Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsækja Hvolsskóla á Hvolsvelli á morgun, miðvikudaginn 11. febrúar. Hvolsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2008 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi.

Fulltrúar nemenda, skólastjóri og kennarar Hvolsskóla taka á móti forsetahjónunum kl. 9:00 í fyrramálið og kynna skólastarfið. Í kjölfarið heimsækja forsetahjón kennslustofur, kynna sér kennsluhætti sem og aðbúnað og viðhorf nemenda. Kl. 11:00 verður sérstök samverustund á sal skólans þar sem forseti mun ávarpa nemendur og svara spurningum þeirra. Áætlað er að heimsókninni ljúki kl. 12:00.

Í umsögn dómnefndar Íslensku menntaverðlaunanna um Hvolsskóla segir m.a.:
„Öflugt og farsælt starf hefur verið unnið í Hvolsskóla um langt skeið. Skólahverfið hefur stækkað og allir grunn¬skólar Rangárþings eystra hafa verið sameinaðir í Hvolsskóla. Samhliða þeirri vinnu hefur markvisst þróunarstarf einkennt starfsemi skólans þar sem nýtt námsfyrirkomulag hefur verið mótað og námið gert einstaklingsmiðaðra. Almennt er viðhorf foreldra jákvætt til innra starfs skólans og samskipta við kennara. Að sama skapi telja kennarar samstarf við foreldra ganga vel fyrir sig.

Gagnkvæm virðing í samskiptum sem einkennast af samvinnu og ly?ðræðislegri ákvarðanatöku er eitt af gildum Hvolsskóla. Birtist það m.a. í starfsháttum nemenda og starfsmanna. Auk þess er rík áhersla lögð á að einstaklingurinn sé hafður í brennidepli. Ýmis skref hafa verið stigin til að ná því marki að koma hverju barni til aukins þroska í samræmi við þarfir þess. Þannig hefur hefðbundið bekkjakerfi vikið fyrir sveigjanlegum námshópum þar sem leitast er við að hver og einn fái þá þjónustu sem honum hæfir. Nemendum er ætlað að tileinka sér sjálfsaga, sjálfsvirðingu og raunhæft sjálfsmat; litið er á samfélagið allt sem námsvettvang fyrir nemendur.

Í þróunarstarfinu hefur kastljósinu verið beint að samvinnu kennara, umsjónarkennaranum, lestrar¬stundum á öllum stigum skólans, námsmati, aðgerðum gegn einelti, gagnvirkum lestri, tengslum leik- og grunnskóla og umhverfisverkefninu Skóli á grænni grein. Þá hafa kennarar verið þátt-takendur í þróunar¬verkefninu Bright Start sem er kennsluaðferð ásamt kennsluefni fyrir yngri nemendurna. Aðferðin er hönnuð til að víkka hugsunarferli barna með því að þroska hugtakanotkun og þrautalausna¬tækni þeirra.

Einstaklingsmiðað nám felur í sér viðleitni af hálfu kennara til að bregðast stöðugt við námsþörfum hvers nemanda. Til þess þarf að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum. Skólinn hefur markvisst unnið að þróunarstarfi í þá veru. Markmið hans er að hver nemandi nái hámarks þroska og árangri. Áhersla er lögð á að nýta þekkingu og færni hvers kennara og laða það besta fram hjá hverjum og einum.

Af öllu þessu er ljóst að í Hvolsskóla er farsælt og framsækið starf þar sem uppsprettan er fólgin í mannauði skóla sem sækir stuðning til góðra verka til hins ytra samfélags, leiddur áfram af styrkri forystu stjórnenda skólans.“