Veftré Print page English

Útför Halldóru Eldjárn - Minningarorð


Halldóra Eldjárn


Þegar Halldóra og Kristján Eldjárn komu að loknum forsetakosningum 1968 með fjölskylduna til Bessastaða varð hið forna setur daglegur vettvangur æskufjörs, gleði unga fólksins. Áður hafði staðurinn á lýðveldistíma verið setinn eldri hjónum, Sveini Björnssyni og Georgiu, Ásgeiri og Dóru, en nú mótuðu systkinin og vinahópur þeirra nýjan brag.

Við Halldóru Eldjárn blasti hið erfiða hlutverk að taka þátt í skyldustörfum forsetans og búa um leið hinni ungu fjölskyldu notalega og hvetjandi umgjörð. Bessastaðir voru þá nokkuð úr alfaraleið, Álftanesið fámenn sveit, varla lýsing á veginum.

Kristján Eldjárn var kosinn forseti á frægu byltingarári æskufólks á Vesturlöndum og hin mannvænlegu börn þeirra hjóna tóku á næstu árum ríkulega þátt í samræðunni sem setti svip á mannfundi hinna yngri. Forsetinn glímdi við erfið verkefni, stjórnarmyndanir á tímum óvissu í efnahagslífi, en í heimilislífinu á Bessastöðum blandaðist léttleiki og ólga æskunnar hinum alvarlegu skyldustörfum.

Halldóra Eldjárn var hin hlýja og vitra móðir, vinur og ráðgjafi barna sinna, virðuleg og alþýðleg í senn við hlið manns síns; húsfreyja á Bessastöðum í anda þess höfðingsskapar og látleysis sem Íslendingar hafa jafnan metið mikils. Þau Kristján voru virtir fulltrúar þjóðarinnar, heimsóttu byggðir landsins, voru góðir gestgjafar heim að sækja, en þá eins og nú komu þúsundir landsmanna til Bessastaða.

Íslendingar virtu Halldóru mikils, kunnu vel að meta alþýðlega framgöngu hennar, yfirbragð sem átti sér rætur vestur á fjörðum.

Halldóra var Ísfirðingur, uppalin þegar bærinn átti sér blómaskeið en var enn mótaður ef erfiðleikum kreppuára. Í þeim Kristjáni komu saman vestfirsk áhrif og menningarbragur Svarfaðardalsins, eiginleikar sem komu sér vel þegar þau bjuggu fyrst í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og síðan í forsetatíð á Bessastöðum.

Þau keyptu sér síðan húsið sem Björn Jónsson ráðherra og ritstjóri byggði á öðrum áratug liðinnar aldar, Staðastað við Sóleyjargötu. Þeim hjónum var þó ekki gefinn þar langur tími því Kristján lést fyrir aldur fram aðeins tveimur árum eftir að hann lét af embætti.

Halldóra var ekkja í rúman aldarfjórðung, naut áfram samveru við börnin og barnabörnin, virðuleg og hlý í fasi, bar aldurinn vel.

Mér þótti vænt um að fá hana í heimsókn hingað til Bessastaða við ýmis tækifæri, spjalla um daglegt líf hennar og fjölskyldunnar hér á staðnum í bland við annir og ábyrgð.

Halldóra Eldjárn markaði djúp spor í sögu hins unga lýðveldis og á kveðjustund þakka Íslendingar störf hennar og framgöngu alla.