Forseti Íslands
The President of Iceland
bjartsyni.is
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson opnar í dag 12. desember kl. 12 á hádegi ásamt forráðamönnum og starfsmönnum ýmissa þekkingarfyrirtækja nýjan vef, bjartsýni.is, sem ætlað er að vera vettvangur fyrir hugmyndir, frásagnir og hugleiðingar sem eflt geta bjartsýni með landsmönnum á komandi tímum. Opnunin fer fram í húsakynnum netfyrirtæksins Gogogic í Brautarholti 26 í Reykjavík. Auk stjórnenda og starfsmanna Gogogic taka þátt í atburðinum fulltrúar frá 3X Technology á Ísafirði, CCP, Data Market, Háskólanum í Reykjavík, Hönnunarmiðstöð Íslands, Marel, Mjólkursamsölunni og Össuri sem komu að verkefninu og Andrew Burgess, Hörður Lárusson og Ragnar Freyr Pálsson, hönnuðir vefjarins. Fréttamenn eru boðnir velkomnir á staðinn.
Hugmyndin að slíkum Bjartsýnisvef kom fram á fundi forseta með starfsmönnum fyrirtækisins Marels í Garðabæ fyrir nokkrum vikum og var þar ákveðið að efna til samvinnu um gerð hans. Í ávarpi forseta á vefnum er tilgangi hans meðal annars lýst á þann hátt að efni sem þar er sett inn eigi að geta veitt þjóðinni innblástur í mótstreyminu.
Það er von aðstandenda að Bjartsýnisvefurinn hjálpi landsmönnum að muna að þótt vandinn sé margvíslegur um þessar mundir, þá er engu að síður margt sem gengur vel.
Letur: |
| |