Forseti Íslands
The President of Iceland
Fullveldisdagurinn - Háskóli Íslands
Forseti flytur ávarp á fjölmennri samkomu stúdenta og kennara á Háskólatorgi, nýrri byggingu Háskóla Íslands. Samkoman var haldin í tilefni af fullveldisdeginum. Í ávarpi sínu minnti forseti á að stúdentar hefðu verið í fararbroddi baráttunnar fyrir fullveldi á 19. öld og mikilvægt væri að háskólar og fræðasamfélag yrði drifkraftur í umræðunum um nýja tíma, hið nýja Ísland sem margir nefndu svo. Skoraði forseti á stúdenta og kennara við Háskóla Íslands að taka forystuna í slíkri umfjöllun, könnun og rannsóknum með sama hætti og skólasveinar á Bessastöðum hefðu á fyrri hluta 19. aldar tekið forystuna í baráttunni fyrir fullveldi. Brýnt væri að spyrja spurninga á gagnrýninn og öflugan hátt og leita svara, bæði hver og einn og þjóðin saman. Því aðeins tækist okkur að skapa betra samfélag, öflugra siðgæði og traustara lýðræði.
Letur: |
| |