Veftré Print page English

Samúðarkveðjur til forseta Indlands - Nýr sendiherra


Forseti sendi í morgun samúðarkveðju til forseta Indlands, Pratibha Patil, vegna hinna hræðilegu hryðjuverkaárása í Mumbai. Indland hefði á undanförnum áratugum verið öflugt og litríkt lýðræðissamfélag þar sem allir trúarhópar njóta sömu réttinda og leitað er friðsamlegra lausna á vandamálum með samkomulagi og sátt. Árásir hryðjuverkamanna á íbúa og ferðamenn í hinni friðsömu Mumbai væru atlaga að lýðræðislegu samfélagi, ekki aðeins á Indlandi heldur einnig á veraldarvísu.

Hugur Íslendinga væri með indversku þjóðinni enda mætum við mikils þá vináttu sem Indverjar hefðu í vaxandi mæli sýnt Íslendingum á undanförnum árum.

Síðar í dag mun nýr sendiherra Indlands á Íslandi, Sivaraman Swaminathan, afhenda trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Hann er fyrsti sendiherra Indlands gagnvart Íslandi sem hefur búsetu á Íslandi. Það er vitnisburður um aukna samvinnu landanna og vináttu Indverja í garð Íslendinga að þeir eru nú að opna sendiráð á Íslandi.