Forvarnardagurinn 2008 - Fréttamannafundur í Austurbæjarskóla
Laugardaginn 1. nóvember kl. 10:30 kynnir forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson áherslur Forvarnardagsins 2008 ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra, Sigurði Óla Ólafssyni forstjóra Actavis, Halldóri Halldórssyni formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, Margréti Tómasdóttur skátahöfðingja, Ólafi Rafnssyni forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Einari Haraldssyni stjórnarmanni í UMFÍ.
Fundurinn verður haldinn í skólastofu nr. 210 í norðurálmu Austurbæjarskóla og munu nokkrir grunnskólanemar taka þátt í honum. Nemarnir verða sérstakir talsmenn Forvarnardagsins í ár. Á fundinum verður frumsýnt kynningarmyndband Forvarnardagsins 2008, þar sem meðal annars koma fram þau Páll Óskar Hjálmtýsson, Ragna Ingólfsdóttir, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Sigfús Sigurðsson og mæðgurnar Guðrún Gunnarsdóttir og Ólöf Jara Valgeirsdóttir.
Forvarnardagurinn verður haldinn fimmtudaginn 6. nóvember í ár. Hann er nú haldinn í þriðja sinn, undir kjörorðinu Taktu þátt! Hvert ár skiptir máli.
Í tilefni dagsins verður dagskrá í öllum 9. bekkjum grunnskóla landsins þar sem ungmennin sjálf koma með tillögur að því hvernig megi auka þátttöku þeirra í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og samveru með fjölskyldu, auk þess sem ungmennin velta upp hvaða leiðir eru færar til að hvetja ungmenni til að fresta áfengisdrykkju og forðast að verða fíkniefnum að bráð á síðari stigum.
Undanfarið hafa verið sýndar í fjölmiðlum auglýsingar sem byggja á verkefnavinnu ungmenna frá Forvarnardeginum 2006. Auglýsingarnar eru byggðar á raunverulegum tillögum ungmennanna. Þær má finna á heimasíðu Forvarnardagsins, forvarnardagur.is. Þar eru einnig niðurstöður verkefnavinnu tveggja síðustu Forvarnardaga, ásamt frekari upplýsingum um verkefnið.
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðstandendur Forvarnardagsins, sem skipulagður er með stuðningi lyfjafyrirtækisins Actavis, eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.