Veftré Print page English

Vettvangsheimsóknir: Hafnarfjörður


Forseti á fund með bæjarstjóra og starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar um viðbrögð við þeim erfiðleikum sem nú steðja að og nauðsyn þess að efla samfélagslega þjónustu á þessum tímum.

Þá heimsótti forseti Flensborgarskóla, ávarpaði nemendur og svaraði fyrirspurnum. Fram kom að mikilvægt væri að ungt fólk ætti áfram kost á því að sækja menntun hvar sem væri í veröldinni, íslenskir framhaldsskólar og háskólar væru sterkir og lánasjóður námsmanna greiddi fyrir námi á komandi árum. Mannauður Íslands væri ríkulegur og auðlindir fjölþættar.

Þá heimsótti forseti Setbergsskóla og ræddi ásamt bæjarstjóra Lúðvík Geirssyni við nemendur 10. bekkjar og svaraði fjölmörgum spurningum þeirra. Í hádeginu heimsótti forseti starfsfólk Actavis og fjallaði í ávarpi sínu um nauðsyn þess að efla bjartsýni og sóknarhug þjóðarinnar með því að reynsla starfsfólks þeirra fyrirtækja sem skilað hefðu miklum árangri eins og Actavis yrði sem flestum kunn, einkum ungu fólki sem væri að huga að framtíðinni.

Loks heimsótti forseti félagsaðstöðu eldri borgara í Hafnarfirði þar sem rætt var um glímuna við margvíslega erfiðleika á liðinni öld, hvernig Hafnarfjörður hefði vaxið úr fátæku sjávarplássi í þann öfluga og fjölþætta bæ sem menn þekktu nú með glæsilegum skólum, íþróttaaðstöðu og öflugri velferðarþjónustu.