Vettvangsheimsóknir: Akureyri
Forseti heimsækir Verkmenntaskólann á Akureyri og á fund með fjölmennum hópi nemenda um tækifæri Íslendinga á komandi tímum, mikilvægi þess að styrkja skólakerfið og efla tiltrú æskunnar á Ísland og hvernig hægt er að nýta auðlindir og mannauð sem hér er að finna.
Næst fór forseti í Giljaskóla og ræddi við nemendur 7.-10. bekkjar og svaraði fjölmörgum spuringum um þróun mála að undanförnu, stöðu Íslands og framtíðina. Þá ávarpaði forseti nemendur og kennara í Háskólanum á Akureyri og tók þátt í ítarlegum samræðum um hvernig bregðast ætti við erfiðleikunum og nýta háskólasamfélag og rannsóknir í þágu nýrra tækifæra. Í hádeginu heimsótti forseti Brim og ræddi við starfsfólk frystihúss félagsins um styrkleikann sem sjávarútvegur hefur jafnan fært Íslendingum og svaraði einnig fjölda fyrirspurna.
Síðdegis átti forseti fund með bæjarstjóranum á Akureyri um samhæfð viðbrögð bæjarfélagsins, félagssamtaka og stofnana. Þá átti forseti fund með starfsfólki ráðhússins og öðrum embættismönnum Akureyrarbæjar um þá lærdóma sem draga mætti af þróun Akureyrarbæjar á undanförnum áratugum, um mikilvægi þess að varðveita hið trausta félagskerfi sem bærinn býr yfir. Þá heimsótti forseti Öldrunarheimili Akureyrarbæjar Hlíð og ræddi við íbúa og starfsfólk um þá lærdóma sem ævireynsla hinna eldri getur fært yngri kynslóðum.
Heimsókn forseta til Akureyrar lauk með viðræðum við starfsfólk fyrirtækisins Blikkrásar um verkefni smiðjunnar og viðhorf starfsmanna gagnvart komandi tímum.