Fyrirlestur og fundir í Alaska
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tekur í þessari viku þátt í Rannsóknarþingi norðursins sem haldið er í Anchorage í Alaska. Þingið sækir fjöldi vísindamanna, sérfræðinga, embættismanna og forystumanna í málefnum norðurslóða auk fjölmennrar sveitar ungra fræðimanna. Þátttakendurnir eru einkum frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kanada og Norðurlöndum.
Forseti flutti ávarp við setningu Rannsóknarþingsins og tók þátt í pallborðsumræðum um framtíð samvinnu á norðurslóðum. Í þeim umræðum kom fram að fjölmörg úrlausnarefni kölluðu á aukna samvinnu ríkjanna á norðurslóðum. Nikita Lomagin prófessor við háskólann í Pétursborg gerði ítarlega grein fyrir hinni nýju norðurstefnu Rússlands og hvernig áformað er að stórauka nýtingu orkulinda á norðurslóðum. Jafnframt greindi Rasmus Bertelsen, vísindamaður við Harvard háskóla, frá rannsóknarverkefni sem helgað er athugunum á öryggismálum og eftirliti í Norður-Atlantshafi með sérstakri áherslu á samvinnu Íslands, Færeyja og Grænlands.
Á Rannsóknarþinginu verður fjallað um framtíðarverkefni Norðurskautsráðsins, loftslagsbreytingar á norðurslóðum, þátttöku frumbyggja í stefnumótun og hvernig hægt sé að tryggja að aukin samvinna á norðurslóðum leiði til farsælla lausna á þeim vandamálum sem við blasa.
Einn þáttur í starfsemi Rannsóknarþingsins er að auka framlag ungra vísindamanna til rannsókna á norðurslóðum og tryggja að þannig bætist mikilvægur liðsauki við hóp þeirra sem stunda fræðistarf í háskólum ríkja á norðurslóðum. Háskólinn á Akureyri rekur þjónustumiðstöð Rannsóknarþingsins og hefur nú sem fyrr tekið öflugan þátt í undirbúningi þess.
Forseti Íslands átti í gær, miðvikudaginn 24. september, fund með Sean Parnell, vararíkistjóra Alaska, sem nú gegnir störfum fyrir Sarah Palin ríkisstjóra sem er frambjóðandi Repúblikana til embættis varaforseta Bandaríkjanna. Á fundinum var rifjað upp að forseti hefði fyrir um ári átt árangursríka fundi með Palin ríkisstjóra um nýtingu jarðhita í Alaska og hefðu þær umræður haft veruleg áhrif á stefnu Alaska á þessu sviði. Jafnframt lýsti Parnell áhuga á því að sérstök sendinefnd frá Alaska kæmi til Íslands til að kynna sér nánar nýtingu jarðhita og skipulag sjávarútvegs. Einnig væri ljóst að aukin áhersla á málefni norðurslóða kallaði á vaxandi samvinnu milli Íslands og Alaska, en ýmis íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum aukið umsvif sín í ríkinu.
Nánari upplýsingar um Rannsóknarþing norðursins má fá á slóðinni nrf.is (sjá einnig
dagskrá þingsins).