Veftré Print page English

Fyrirlestur í Columbia


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær, mánudaginn 22. september, fyrirlestur í boði Columbia háskóla í New York og bar hann heitið „Tilraunastöðin Ísland“. Fyrirlesturinn fjallaði um árangur smáríkja á veraldarvísu, þróun mannauðs og nýtingu hreinnar orku. Fyrirlesturinn var haldinn á vegum svonefnds World Leadership Forum en háskólinn hefur boðið þjóðarleiðtogum að flytja mál sitt á þeim vettvangi nokkur undanfarin haust.

Í fyrirlestrinum lýsti forseti breytingum á heimsmyndinni sem orðið hafa á síðustu áratugum, ræddi fjölgun smáríkja og hvernig þau hafa haft forystu um nýjungar á ýmsum sviðum. Hann tók sem dæmi baráttu Trinidad og Tobago fyrir stofnun alþjóðlegs stríðsglæpadómstóls, viðleitni Maldíveyja til að vekja athygli á hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga og nýlegt frumkvæði Katars til að koma á friði í Líbanon. Forseti lýsti einnig baráttu Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar og setningu alþjóðlegra laga um efnahagslögsögu strandríkja.

Forseti fjallaði um eiginleika smárra ríkja, og hve auðvelt þau ættu með að ryðja nýjum hugmyndum braut. Ný heimsmynd byggðist í æ ríkara mæli á sköpunarkrafti, hugarorku, menntun og rannsóknum og því væru smá ríki nú betur sett en á síðustu öld.

Þá lýsti forseti árangri Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og hvernig þjóðin hefði losað sig æ meir frá innflutningi á olíu. Nú væru áform uppi um nýja áfanga í þessum efnum og í síðustu viku hefði verið haldin í Reykjavík mjög athyglisverð alþjóðleg ráðstefna um sjálfbærar samgöngur.

Forsetinn vék einnig að sögulegu hlutverki smárra þjóðfélaga við að móta hugmyndir um lýðræði og réttlæti, nefndi dæmi frá fyrri öldum og hvernig bandaríska stjórnkerfið hefði verið mótað af mönnum sem öðlast hefðu stjórnmálareynslu í litlum bæjarsamfélögum í Bandaríkjunum fyrir um 200 árum. Fyrirlestur forseta má nálgast á heimasíðu forsetaembættisins.

Að loknum fyrirlestrinum svaraði forseti Íslands fjölda fyrirspurna og átti fund með rektor Columbia háskóla, Lee Bollinger. Í gær var einnig undirritaður samstarfssamningur milli Háskólans í Reykjavík og Columbia háskólans. Samningurinn fjallar um samstarf milli Háskólans í Reykjavík og Teachers College við Columbia háskóla og felur meðal annars í sér nemendaskipti milli skólanna, ráðgjöf frá sérfræðingum Teachers College og þjálfun fyrir kennara.

Í gær flutti forseti opnunarræðu á umræðufundi um loftslagsbreytingar og alþjóðasamstarf á fjölþjóðlegri ráðstefnu sem Louise T.  Blouin stofnunin heldur í New York. Ráðstefnuna sækja sérfræðingar og forystumenn víða að úr veröldinni.