Opinber heimsókn forseta Úganda
Forseti Úganda Yoweri K. Museveni og frú Janet Museveni koma í opinbera heimsókn til Íslands miðvikudaginn 17. september. Með þeim í för eru utanríkisráðherra landsins Sam Kuteesi, þingmenn og embættismenn. Markmið heimsóknarinnar er einkum að kynna sér nýtingu jarðhita á Íslandi, þróun sjávarútvegs, menntun í upplýsingatækni og beitingu hennar í þágu opinberrar stjórnsýslu. Heimsóknin er einnig mikilvægur áfangi í auknum tengslum Íslands við Afríku en Úganda er meðal helstu forysturíkja álfunnar.
Heimsóknin hefst með opinberri móttökuathöfn á Bessastöðum í fyrramálið, miðvikudaginn 17. september, klukkan 10:00 að viðstöddum ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands og embættismönnum. Að athöfn lokinni verður fundur forseta Íslands og forseta Úganda og munu þeir síðan ræða við fréttamenn.
Í hádeginu munu forsetarnir ásamt sendinefnd frá Úganda heimsækja Hellisheiðarvirkjun og snæða hádegisverð í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Þá fer þar fram kynning á nýtingu jarðhita á Íslandi og umsvifum íslenskra orkufyrirtækja og fjárfestingarsjóða víða í veröldinni. Í Úganda eru talsverðir möguleikar á nýtingu jarðvarma eins og í fleiri ríkjum Austur-Afríku en Orkuveita Reykjavíkur á þegar samstarf við stjórnvöld í Djíbútí um jarðvarmavirkjun þar.
Um morguninn munu forsetafrú Úganda og Dorrit Moussaieff heimsækja grunnskólann á Álftanesi og utanríkisráðherra Úganda eiga fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra.
Síðdegis mun forseti Úganda heimsækja Þjóðminjasafnið og Alþingi og eiga fund með fulltrúum í utanríkismálanefnd. Um kvöldið bjóða forsetahjónin til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs forseta Úganda og frú Museveni.
Að morgni fimmtudagsins 18. september heimsækir forseti Úganda höfuðstöðvar Actavis og tekur síðan þátt í kynningarfundi um upplýsingatækni og menntun sem haldinn er í Háskólanum í Reykjavík. Þar munu íslenskir sérfræðingar kynna áfanga sem náðst hafa á þessu sviði á undanförnum árum og hvernig hagnýta megi reynslu Íslendinga í öðrum löndum.
Um hádegisbil mun forseti Úganda eiga fund í Ráðherrabústaðnum með Geir H. Haarde forsætisráðherra og snæðir að því loknu hádegisverð í boði ráðherrans.
Síðdegis verður haldið til Grindavíkur þar sem fiskvinnslufyrirtækið Vísir kynnir starfsemi sína og fram fer kynning á íslenskum sjávarútvegi í Saltfisksetri Íslands í Grindavík. Á kynningarfundinum verður fjallað um nýtingu upplýsingatækni á vettvangi fiskvinnslu og útgerðarfyrirtækja, starfsemi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og skipulag hafrannsókna og fiskveiða. Að því loknu munu forseti Úganda og fylgdarlið kynna sér starfsemi Bláa lónsins og lækningamiðstöðina þar.
Forseti Úganda og fylgdarlið munu halda af landi brott að morgni föstudagsins.
Dagskrá heimsóknarinnar á ensku fylgir með fréttatilkynningunni og þar er að finna nákvæmar tímasetningar einstakra atburða.