Veftré Print page English

Vatnasvið Bangladess - Sunderban


Forseti fer suður undir Bengalflóa og kynnir sér vatnasvið Bangladess. Með hverju ári sem líður verða flóð á þessum slóðum meiri og alvarlegri með tilheyrandi eyðileggingu á mannvirkjum og mannlífi. Árbakkar hinna miklu fljóta sem renna til sjávar um óshólma Bangladess brotna sífellt og sjór sækir að jafnt og þétt.

Þá sigldi forseti um Sunderban sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem stærsti flotskógur veraldar, en hann spannar 6.017 ferkílómetra. Í Sunderban eru heimkynni einstaklega fjölbreytilegs plöntu- og dýralífs og þar þrífst meðal annars hinn tignarlegi Bengaltígur. Um Sunderban liggur margslungið net stórfljóta, smærri vatnsfalla og síkja. Þar eru stundaðar fiskveiðar og hunangsvinnsla og viður sóttur til margvíslegra nytja. Mannlíf hefur verið í Sunderban frá fornu fari en í dag byggja um 5 milljónir manna tilveru sína með beinum eða óbeinum hætti á nytjum Sunderban. Um þessar slóðir fór hvirfilbylurinn Sidr í nóvember 2007 og olli gríðarlegri eyðileggingu á náttúru og mannlífi.