Veftré Print page English

Grameen bankinn - Yunus


Forseti heimsækir höfuðstöðvar Grameen bankans í Dhaka sem stofnaður var fyrir röskum 30 árum til að þjóna hinum fátækustu, öreigum og betlurum. Þá átti forseti sérstakan fund með Muhammad Yunus, stofnanda og stjórnanda bankans, en hann hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2006 fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn örbirgð í heiminum.

Bankinn hefur vaxið mjög og starfar nú í 82.000 þorpum í Bangladess, útibúin eru 2.521 og starfsfólkið 27.500. Lántakendur eru ríflega 7.500.000 einstaklingar, 97% þeirra konur, en ætla má að áhrifa bankans gæti í lífi um 40 milljóna manna í Bangladess. Fram kom í máli forsvarsmanna bankans að ástæða þess að konur væru svo mikill meirihluti lántakenda væru margþættar. Enginn hópur ætti meira undir högg að sækja í samfélaginu; með því að konur væru ábyrgar fyrir lánum væru þær jafnframt eigendur húsnæðis fjölskyldunnar og líklegri til þess að tryggja félagslegt öryggi fjölskyldunnar í heild sinni.

Meðal sérstakra verkefna sem kynnt voru forseta var átak í þágu betlara. Um 100 þúsund betlarar í Bangladesh hafa notið vaxtalausra örlána bankans undanfarin ár. Af þeim hafa 13 þúsund hafið sig úr örbirgð og eru nú hefðbundnir lántakendur í bankanum. Þá var kynnt víðtækt styrkjakerfi í þágu menntunar barna, unglinga og ungmenna. Grameen bankinn starfar nú í 38 löndum.

Á fundi forseta með Mohammad Yunus var einkum rætt um hvernig tengja mætti nýja tækni á sviði hreinnar orku, einkum jarðhita, sólarorku og vindorku, við hugvitssamlegar lausnir í orkumálum hinna fátækustu í veröldinni. Ríflega hálfur annar milljarður jarðarbúa hefur engan aðgang að hreinum orkugjöfum og brennir ýmist viði, olíu eða öðrum mengandi orkugjöfum. Ákváðu forseti og Yunus að leita sameiginlega ýmissa leiða í þessum efnum og virkja sérfræðinga og áhrifamenn í ýmsum löndum í þessu mikilvæga verkefni. Án slíkra lausna í orkubúskap um þriðjungs mannkyns, þeirra sem verst eru settir, yrði erfitt að finna varanlegir lausnir á loftslagsvandanum.