Forseti Íslands
The President of Iceland
Fundur með forseta Bangladess
Forseti á fund með forseta Bangladess Iajuddin Ahmed í forsetahöllinni í Dakka. Á fundinum ræddu forsetarnir hvernig örlög þjóða tvinnast nú saman á tímum alþjóðlegra loftslagsbreytinga og hvaða leiðir mætti fara til að efla samvinnu ríkja. Breytingar á náttúru norðurslóða hefðu afdrifaríkar afleiðingar í Bangladess og öðrum ríkjum Suður-Asíu. Hækkun sjávarborðs gæti valdið meiri eyðingu og mannfórnum í Bangladess en innrás óvinahers. Baráttan gegn loftslagsbreytingum væri stærsta öryggisvandamál nýrrar aldar.
Þá ræddu forsetarnir samstarf Íslands og Bangladess á sviði fiskveiða, en nokkrir nemendur frá Bangladess hafa stundað nám við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og tveir nemendur til viðbótar munu hefja nám á næstu vikum. Þá væri stefnt að frekari samvinnu á sviði þjálfunar og menntunar.
Forseti Bangladess efndi til hátíðarkvöldverðar til heiðurs forseta Íslands sunnudaginn 31. ágúst. Þar voru meðal gesta dr. Fakruddin Ahmed forsætisráðherra, Iftekhar Ahmed Showdhury utanríkisráðherra, Mohammad Yunus stofnandi Grameen bankans, háttsettir embættismenn og forystumenn háskólans í Dakka. Á fundum forseta með ráðamönnum Bangladess ítrekuðu þeir afdráttarlausan stuðning landsins við framboð Íslendinga til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 2009-2010 og töldu brýnt að ríki með áþekka reynslu og Ísland ættu sæti í ráðinu.
Letur: |
| |