Forseti Íslands
The President of Iceland
Heimsókn til Bangladess - Himalayaráð
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson var um helgina í Bangladess, flutti lokaræðuna á alþjóðlegu þingi um loftslagsbreytingar og átti fundi með forseta landsins og öðrum ráðamönnum. Forseti heimsótti höfuðstöðvar Grameen bankans, sem rutt hefur nýjar brautir í lánveitingum til fátæklinga, öreiga og betlara, og ræddi við stofnanda hans og stjórnanda, Nóbelsverðlaunahafann Muhammad Yunus. Þá fór forseti í vettvangsheimsókn um óshólma og strandsvæði Bangladess til að kynna sér hvernig yfirvofandi hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga ógnar lífsháttum og öryggi tugmilljóna íbúa landsins.
Ræða forseta Íslands á alþjóðaþinginu, þar sem hann kynnti m.a. hugmyndir sínar um stofnun sérstaks Himalayaráðs vakti mikla athygli og var fjallað um hana í helstu blöðum og fjölmiðlum landsins. Kjarninn í ræðunni var að lýsa hvernig bráðnun jökla á norðurslóðum ógnar nú öryggi og lífsháttum íbúa í Asíu en um tveir milljarðar manna búa við eða nærri ströndum álfunnar. Forseti rakti fjölmörg vandamál sem fylgja mundu loftslagsbreytingum og gætu jafnvel leitt til átaka eða styrjalda milli ríkja. Mætti þar nefna skort á neysluvatni, eyðingu landsvæða og fjölgun flóttamanna. Hætta væri á því að eyríki hyrfu með öllu.
Bráðnun jökla í Himalayafjöllunum væri mun örari en áður hefði verið talið og hvatti forseti til að ríkin í og við Himalayafjöllin fylgdu fordæmi ríkjanna á norðurslóðum og mynduðu sérstakt samvinnuráð í stíl við Norðurskautsráðið. Nýtt Himalayaráð gæti orðið áhrifaríkur samstarfsvettvangur. Ræðu forseta, sem flutt var á ensku, má nálgast á heimasíðu embættisins.
Þegar eftir komu forseta til Bangladess að kvöldi föstudagsins 29. ágúst átti hann fund með Iajuddin Ahmed forseta Bangladess í forsetahöllinni í Dakka. Á fundinum ræddu forsetarnir hvernig örlög þjóða tvinnast nú saman á tímum alþjóðlegra loftslagsbreytinga og hvaða leiðir mætti fara til að efla samvinnu ríkja. Breytingar á náttúru norðurslóða hefðu afdrifaríkar afleiðingar í Bangladess og öðrum ríkjum Suður-Asíu. Hækkun sjávarborðs gæti valdið meiri eyðingu og mannfórnum í Bangladess en innrás óvinahers. Baráttan gegn loftslagsbreytingum væri stærsta öryggisvandamál nýrrar aldar.
Þá ræddu forsetarnir samstarf Íslands og Bangladess á sviði fiskveiða, en nokkrir nemendur frá Bangladess hafa stundað nám við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og tveir nemendur til viðbótar munu hefja nám á næstu vikum. Þá væri stefnt að frekari samvinnu á sviði þjálfunar og menntunar.
Forseti Bangladess efndi til hátíðarkvöldverðar til heiðurs forseta Íslands sunnudaginn 31. ágúst. Þar voru meðal gesta dr. Fakruddin Ahmed forsætisráðherra, Iftekhar Ahmed Showdhury utanríkisráðherra, Mohammad Yunus stofnandi Grameen bankans, háttsettir embættismenn og forystumenn háskólans í Dakka. Á fundum forseta með ráðamönnum Bangladess ítrekuðu þeir afdráttarlausan stuðning landsins við framboð Íslendinga til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 2009-2010 og töldu brýnt að ríki með áþekka reynslu og Ísland ættu sæti í ráðinu.
Alþjóðlegu ráðstefnuna um loftslagsbreytingar og fæðuöryggi sem forseti ávarpaði í Dakka sótti fjöldi áhrifamanna, vísindamanna og sérfræðinga frá 17 löndum, m.e. Kína, Indlandi, Pakistan og fleiri löndum í Asíu. Einnig sóttu hana stjórnendur alþjóðastofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna sem skipulögðu ráðstefnuna í samvinnu við heimamenn og Ohio ríkisháskólann í Bandaríkjunum. Á ráðstefnunni fluttu erindi Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Dagfinnur Sveinbjörnsson sérfræðingur í þróunarmálum.
Í tengslum við ráðstefnuna átti forseti viðræður við dr. Rattan Lal, prófessor við Ohio ríkisháskólann, sem er einn helsti sérfræðingur heims í landgræðslu og jarðvegsfræðum. Rætt var um ýmsar leiðir til að auka samvinnu við íslenska vísindamenn og rannsóknarstofnanir, en dr. Lal hefur verið eindreginn hvatamaður þess að rannsóknir á vegum Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands nýttust á alþjóðavettvangi í baráttunni gegn landeyðingu.
Forseti Íslands heimsótti laugardaginn 30. ágúst höfuðstöðvar Grameen bankans í Dakka, sem stofnaður var fyrir röskum 30 árum til að þjóna hinum fátækustu, öreigum og betlurum. Þá átti forseti sérstakan fund með Muhammad Yunus, stofnanda og stjórnanda bankans, en hann hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2006 fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn örbirgð í heiminum.
Bankinn hefur vaxið mjög og starfar nú í 82.000 þorpum í Bangladess, útibúin eru 2.521 og starfsfólkið 27.500. Lántakendur eru ríflega 7.500.000 einstaklingar, 97% þeirra konur, en ætla má að áhrifa bankans gæti í lífi um 40 milljóna manna í Bangladess. Fram kom í máli forsvarsmanna bankans að ástæða þess að konur væru svo mikill meirihluti lántakenda væru margþættar. Enginn hópur ætti meira undir högg að sækja í samfélaginu; með því að konur væru ábyrgar fyrir lánum væru þær jafnframt eigendur húsnæðis fjölskyldunnar og líklegri til þess að tryggja félagslegt öryggi fjölskyldunnar í heild sinni.
Meðal sérstakra verkefna sem kynnt voru forseta var átak í þágu betlara. Um 100 þúsund betlarar í Bangladesh hafa notið vaxtalausra örlána bankans undanfarin ár. Af þeim hafa 13 þúsund hafið sig úr örbirgð og eru nú hefðbundnir lántakendur í bankanum. Þá var kynnt víðtækt styrkjakerfi í þágu menntunar barna, unglinga og ungmenna. Grameen bankinn starfar nú í 38 löndum.
Á fundi forseta með Mohammad Yunus var einkum rætt um hvernig tengja mætti nýja tækni á sviði hreinnar orku, einkum jarðhita, sólarorku og vindorku, við hugvitssamlegar lausnir í orkumálum hinna fátækustu í veröldinni. Ríflega hálfur annar milljarður jarðarbúa hefur engan aðgang að hreinum orkugjöfum og brennir ýmist viði, olíu eða öðrum mengandi orkugjöfum. Ákváðu forseti og Yunus að leita sameiginlega ýmissa leiða í þessum efnum og virkja sérfræðinga og áhrifamenn í ýmsum löndum í þessu mikilvæga verkefni. Án slíkra lausna í orkubúskap um þriðjungs mannkyns, þeirra sem verst eru settir, yrði erfitt að finna varanlegir lausnir á loftslagsvandanum.
Sunnudaginn 31. ágúst flaug forseti suður undir Bengalflóa og kynnti sér vatnasvið Bangladess. Með hverju ári sem líður verða flóð á þessum slóðum meiri og alvarlegri með tilheyrandi eyðileggingu á mannvirkjum og mannlífi. Árbakkar hinna miklu fljóta sem renna til sjávar um óshólma Bangladess brotna sífellt og sjór sækir að jafnt og þétt.
Þá sigldi forseti um Sunderban sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem stærsti flotskógur veraldar, en hann spannar 6.017 ferkílómetra. Í Sunderban eru heimkynni einstaklega fjölbreytilegs plöntu- og dýralífs og þar þrífst meðal annars hinn tignarlegi Bengaltígur. Um Sunderban liggur margslungið net stórfljóta, smærri vatnsfalla og síkja. Þar eru stundaðar fiskveiðar og hunangsvinnsla og viður sóttur til margvíslegra nytja. Mannlíf hefur verið í Sunderban frá fornu fari en í dag byggja um 5 milljónir manna tilveru sína með beinum eða óbeinum hætti á nytjum Sunderban. Um þessar slóðir fór hvirfilbylurinn Sidr í nóvember 2007 og olli gríðarlegri eyðileggingu á náttúru og mannlífi.
Letur: |
| |