Veftré Print page English

Fundur með forseta Kína


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í morgun, föstudaginn 22. ágúst, árangursríkan fund með forseta Kína Hu Jintao. Á fundinum þakkaði forseti Kína fyrir þá samúð sem Íslendingar hefðu sýnt kínversku þjóðinni vegna jarðskjálftanna nýverið og tilkynnti að kínversk stjórnvöld hefðu ákveðið að leita eftir samstarfi við Íslendinga um að koma upp í Kína viðvörunarkerfi vegna jarðskjálfta sem byggt væri á því kerfi sem íslenskir vísindamenn og sérfræðingar hefðu þróað og nýtt væri á Íslandi. Forseti Íslands hafði á fyrri fundum forsetanna 2005 og 2007 vakið athygli á þessu íslenska viðvörunarkerfi og lýsti ánægju með þessa ákvörðun.

Forseti Kína fagnaði sérstaklega árangri íslenska landsliðsins í handknattleik og lýsti áhuga á því að efla enn frekar samstarf þjóðanna á sviði íþrótta. Ólympíuleikarnir í Beijing yrðu vonandi til þess að treysta friðsamlega sambúð og vináttu þjóða heims. Forseti Íslands vék að heimsókn sinni í Ólympíuþorpið í gær og hve ánægðir íslensku þátttakendurnir hefðu verið með allan aðbúnað og þjónustu. Á fundi forsetanna var einnig rætt um Heimsleika seinfærra og þroskaheftra, Special Olympics, sem haldnir voru í Shanghai fyrir ári síðan, en forseti Íslands situr í heimsstjórn Special Olympics. Einnig myndi Ísland senda sveit á Paraolympics, Heimsleika fatlaðra, sem hefjast í Beijing í næsta mánuði.

Þá kom einnig ítrekað fram á fundinum að í hugum Kínverja væri samstarfið við Íslendinga mikilvægur vitnisburður um hvernig smáar þjóðir og stórar gætu á nýrri öld unnið saman á árangursríkan hátt. Kínverjar gætu margt lært af Íslendingum. Samstarfið um nýtingu jarðhita til húshitunar hefði þegar skilað veigamiklum árangri og áhugi væri á því að byggja hitaveitur í samvinnu við Íslendinga í fleiri borgum í Kína.
Forseti Kína hvatti íslensk fyrirtæki og kínversk til að vinna ötullega að samvinnu á þessu sviði og lýsti fullum stuðningi kínverskra stjórnvalda við slíkar hitaveituframkvæmdir. Forseti Íslands mun að loknum Ólympíuleikunum eiga fund með æðstu stjórnendum Sinopec, eins stærsta orkufyrirtækis Kína.

Forseti Kína fagnaði þeim margvíslega árangri sem náðst hefði á fjölmörgum sviðum í kjölfar opinberrar heimsóknar Ólafs Ragnars Grímssonar til Kína árið 2005 og í framhaldi af heimsókn forsetans til fimm borga í Kína á síðasta ári. Í þessum heimsóknum forseta Íslands hefði verið lagður grundvöllur að fjölþættum árangri sem sannaði hve mikilvæg samvinna þjóðanna gæti orðið í framtíðinni.

Á fundi forsetanna kom fram mikil ánægja með þróun viðræðna um fríverslun, en Ísland er fyrsta landið í Evrópu sem vinnur að gerð slíks samnings við Kína. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Kína stýrir viðræðunum af hálfu Íslendinga.

Forseti Íslands rifjaði upp að á fundi hans með Hu Jintao forseta Kína í fyrrahaust hefðu þeir rætt um að auka samskipti og viðræður milli verkalýðsfélaga og almannasamtaka landanna. Mikilvægt væri að fylgja því eftir á komandi misserum. Þróun hins opna og lýðræðislega samfélags á Íslandi á síðustu öld gæti á ýmsan hátt verið Kínverjum lærdómsríkt fordæmi um þróun lýðræðis og mannréttinda. Umfjöllun fræðimanna um slíka þjóðfélagsþróun gæti einnig verið framlag til aukinnar samvinnu landanna, enda hefðu íslenskir og kínverskir háskólar nú þegar gert samninga um víðtækt vísindasamstarf og rannsóknir.

Auk forseta Íslands sátu fundinn Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra, Örnólfur Thorsson forsetaritari, starfsmenn sendiráðs Íslands, Ólafur Rafnsson forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Líney R. Halldórsdóttir framkvæmdastjóri sambandsins og Magnús Bjarnason formaður Viðskiptaráðs Íslands og Kína.

Auk Hu Jintao forseta Kína og Yang Jiechi utanríkisráðherra sátu fundinn nokkrir af æðstu ráðamönnum Kína.