Veftré Print page English

Forseti kominn á Ólympíuleikana - Fundur með forseta Kína


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og forsetafrú Dorrit Moussaieff komu í nótt að íslenskum tíma til Beijing til að vera viðstödd lokadaga og lokaathöfn Ólympíuleikanna.

Forsetahjónin horfðu á sigurleik íslenska handboltaliðsins gegn Pólverjum í morgun og munu fylgjast með öðrum leikjum í handbolta og ýmsum öðrum keppnisgreinum, heimsækja Ólympíuþorpið og hitta alla íslensku þátttakendurna.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands bauð forseta Íslands að koma á leikana. Forseti er verndari sambandsins og mun taka þátt í ýmsum atburðum á vegum Íþrótta- og Ólympíusambandsins meðan á dvölinni í Beijing stendur.

Forseti Kína Hu Jintao hefur óskað eftir að eiga fund með forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni og mun fundur forsetanna verða á föstudagsmorgun að kínverskum tíma.

Frá Kína fer forseti Íslands á alþjóðlega ráðstefnu í Bangladesh um loftslagsbreytingar og fæðuöryggi. Margar þjóðir í Asíu óttast nú afleiðingarnar af þeirri hækkun sjávarborðs sem bráðnun jökla og íss á norðurslóðum – á Grænlandi, Norðurskautinu og Íslandi – mun hafa í för með sér ef ekki tekst að koma í veg fyrir alvarlegar loftslagsbreytingar.