Veftré Print page English

Ólympíuleikar - Alþjóðaþing í Bangladess


Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur þegið boð Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og forseta Kína Hu Jintao um að sækja Ólympíuleikana sem verða haldnir í Peking í næsta mánuði.

Forsetinn mun koma til Kína 21. ágúst, vera viðstaddur lokahátíð leikanna 24. ágúst, fylgjast með keppnisgreinum og heimsækja íslenska íþróttafólkið. Forsetinn er verndari Íþrótta- og Ólympíusambandsins.

Frá Kína heldur forsetinn til Dakka höfuðborgar Bangladess þar sem hann verður ásamt forseta Bangladess Iajuddin Ahmed ræðumaður á alþjóðlegu þingi um loftslagsbreytingar, gróðurfar og hækkun sjávarborðs. Þingið sækir fjöldi vísindamanna, sérfræðinga og áhrifafólks í alþjóðlegri stefnumótun. Íslenskir sérfræðingar og vísindamenn verða á meðal þátttakenda

Bangladess er eitt af fátækustu ríkjum veraldar og yfirvofandi loftslagsbreytingar ógna lífsskilyrðum tugmilljóna íbúa. Bráðnun íss og jökla á Norðurslóðum mun leiða til hækkunar sjávarborðs um allan heim og stór landsvæði í Bangladess geta horfið undir haf. Líklega er engu landi í veröldinni ógnað á viðlíka hátt og Bangladess með bráðnun íss sem loftslagsbreytingar á Norðurslóðum hafa í för með sér. Byggðir munu hverfa og fæðuöflun verða ærið torveld. Þróunin í heimshluta okkar Íslendinga getur haft hrikaleg áhrif á lífsskilyrði hundruða milljóna í Asíu. Hinu alþjóðlega þingi í Dakka er ætlað að leiða í ljós að allar þjóðir þurfa að taka höndum saman.