CNN, Time og Fortune
Forseti tók í gær þátt í umræðuþætti á vegum sjónvarpsstöðvarinnar CNN og tímaritanna Time og Fortune. Þátturinn var tekinn upp í Doha, höfuðborg Katars, og er liður í umfjöllun CNN og tímaritanna tveggja um þróun orkumála, hagvöxt í heiminum á komandi áratugum og baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Hann er tengdur sérstökum viðtalsþætti sem CNN tók upp á Íslandi fyrir nokkrum vikum og helgaður er viðtali við forseta Íslands og kynningu á árangri Íslendinga í nýtingu hreinnar orku.
Umræðurnar í Doha eru liður í þáttaröð sem ber enska heitið Principal Voices. Meðal þátttakenda hafa verið vísindamenn, sérfræðingar og forystumenn í viðskiptalífi, en forseti Íslands er fyrsti þjóðhöfðinginn sem boðið er að koma fram í þessum umræðuþáttum. Auk forseta Íslands sátu fyrir svörum dr. Joseph Adelegan frá Nígeríu, sérfræðingur í umhverfismálum, og Hesham Ismail al Emadi, forstjóri orkuborgar, Energy City, sem verið er að þróa í Katar og víðar um heiminn. Í salnum var einnig fjöldi áhrifamanna frá ýmsum ríkjum, stjórnendur í atvinnulífi og vísindamenn sem báru fram fyrirspurnir og tóku þátt í umræðum. Stjórnendur umræðnanna voru Michael Holmes, fréttamaður frá CNN, og Stephanie Mehta, einn af ritstjórum Fortune.
Í þættinum var einkum fjallað um hvernig aukin eftirspurn eftir orku getur samrýmst vaxandi hagvexti á komandi áratugum án þess að auka hættuna á loftslagsbreytingum, en gífurleg eftirspurn eftir orku verður eitt helsta viðfangsefni 21. aldarinnar.
Í umræðunum rakti forseti árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og nefndi ýmis dæmi um tækninýjungar og vísindarannsóknir á Íslandi. Þá lýsti hann verkefnum sem Íslendingar standa að í samstarfi við þjóðir víða um heim, m.a. í Mið-Austurlöndum, Asíu og Afríku. Ísland væri sönnun þess að hægt væri að ná auknum hagvexti og skapa öfluga velferð almennings á grundvelli sjálfbærrar nýtingar orkulinda. Í því fælist mikilvægur boðskapur fyrir heimsbyggðina.
Umræðunum sem fram fóru í Doha verður miðlað á heimasíðu CNN og jafnframt munu tímaritin Time og Fortune vinna úr efni þeirra. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á heimasíðu þáttanna, http://www.principalvoices.com/